Hrökkbrauð er ótrúlega vinsælt í Svíþjóð – hér eru heilu rekkarnir í búðum undirlagðir öllum mögulegum (og ómögulegum) hrökkbrauðstegundum, bæði þessu týpíska þykka wasa-hrökkbrauði sem fæst á Íslandi en svo líka þunnu og nýbökuðu, í stórum skífum, í litlum þunnum plötum, heilhveiti, spelt, kanil, kryddhrökkbrauði og fræhrökkbrauði. Það virðist líka vera borið fram í staðin fyrir “venjulegt” gerbrauð með mörgum mat, allavega veit ég að strákarnir mínir virðast geta gengið í hrökkbrauð með öllum máltíðum í skólanum.
Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega fyrir þykka wasahrökkbrauðið en nýbakað hrökkbrauð sem ég smakkaði fyrst eftir að ég flutti hingað út finnst mér aftur á móti einstaklega gott og mig hefur lengi langað til að prófa að baka slíkt. Uppskriftin sem þið fáið er reyndar ekki alveg týpískt hrökkbrauð (og ég hef enn ekki prófað að baka slíkt) og uppskriftin kemur frá Íslandi en hún er hins vegar alveg í stíl við týpísk fræhrökkbrauð sem til eru óteljandi uppskriftir að hér í Svíþjóð. Ótrúlegt einfalt og fljótlegt að baka og ekki síður hollt og ótrúlega gott 🙂
Hrökkbrauð með fræjum
4 dl Kornax heilhveiti (eða hveiti)
1 dl haframjöl
1 dl graskersfræ
1 dl sesamfræ
1 dl sólblómafræ
1 dl hörfræ
1 tsk lyftiduft
2 tsk salt (maldon)
1 dl olía
2 dl vatn
Öllum hráefnum blandað saman og deiginu skipt í tvo hluta. Athugið að deigið er mjög blautt. Best er að nota 2 bökunarpappíra, setja deigið á milli og fletja þannig út á milli þeirra. Þegar búið er að fletja deigið út er það skorið í bita áður en bakað er, pizzahnífur er mjög hentugur í verkið. Stráið maldon salti yfir og bakið í miðjum ofni við 200°C í 15 – 20 mín.