Ég ættlaði að fara í allt í köku þegar ég fór til Reykjavíkur fyrir jól. Það varð ekkert úr því vegna tímaleysis og ég setti það á ís að kaupa sprautustútinn sem mig er búið að langa í í nokkra mánuði. Það kom að lokum að því að ég gat bara ekki beðið lengur og hringdi í stelpurnar í Allt í köku og pantaði loksins stútinn. Ég ákvað að vera villt og fjárfesta í margnota sprautupoka líka. Ég er búin að eiga nokkra slíka poka en þeir hafa allir verið drasl. Síðustu 2 ár hef ég notað einnota poka og líkar mér það ágætlega, fyrir utan sóunina sem það er að henda pokunum eftir hverja notkun. Eftir að hafa eitt öllum þessum tíma í að hugsa um krem og sprautupoka varð ég síðan að baka nokkrar cupkakes til að klóra bökunarkláðann sem kom upp.
Sítrónu cupcake með sítrónukremi
100 gr kornax hveiti
1 1/2 tsk lyftiduft
1/8 tsk salt
100 gr smjör (mjúkt)
100 gr flórsykur
1 egg
2 tsk sítrónusafi eða 2 tsk rifinn sítrónubörkur
Kveikið á ofninum, 180°c
Þeytið saman smjörið og flórsykurinn þar til það er létt og ljóst. Þeytið sítrónusafanum/sítrónuberkinum og egginu saman við smjörið. Sigtið þurrefnin saman við og hrærið saman, hrærið þó eins lítið og þið komist upp með.
Setjið eina til eina og hálfa matskeið af deigi í cupcakesformin og bakið í 10 – 20 mínútur eða þar til pinni kemur hreinn uppúr kökunum þegar stungið er í þær.
Látið kökurnar kólna alveg.
Sítrónukrem
75 gr mjúkt smjör
175 gr flórsykur
2 tsk sítrónusafi
rifin börkur af sítrónu
Þeytið saman smjörið og flórsykurinn mjög vel þar til blandan er létt og ljós. Hrærið sítrónusafanum og berkinum saman við.
Ég notaði ekki sítrónubörkinn í kremið þar sem ég átti ekki til sítrónu. Ég mæli með því að sleppa honum ekki, sítrónubragðið hefði verði meira og betra ef hann hefði verið með 🙂
Sprautið kreminu á kökurnar að vild eða smyrjið bara kreminu á, skreitið með kökuskrauti ef vill.
Magnið af kremi sem gefið er upp hér dugar ekki til að skreita allar kökurnar með svona miklu kremi eins og ég gerði. 😉