Jæja, þá er Tobba búin að skella inn áramótadessertinum sem hún bauð upp á og kannski ekki seinna vænna fyrir mig en að gera slíkt hið sama, ekki nema 17 dagar frá áramótum (hvert fer tíminn?)!
Ég hef aldrei bakað pavlovu áður, ef ég á að vera alveg hreinskilin þá er ég hálf hrædd við marengs eftir að ég bakað einu sinni nokkra botna úr afganseggjahvítum og þeir urðu allir ólseigir og leiðinlegir. Mig langaði samt að prófa, var búin að heyra góða hluti um þessa súkkulaðipavlovu úr smiðjum eldhúsgyðjunnar Nigellu og við urðum svo sannarlega ekki svikin. Ég hefði reyndar betur farið alveg eftir uppskriftinni og beðið með að setja rjómann og berin á, hún var farin að síga hressilega þegar við fengum okkur dessertinn 🙂
Súkkulaðipavlova með berjum
Súkkulaðimarengs
6 eggjahvítur, stórar
300 gr sykur
3 msk kakóduft, sigtað
1 tsk balsamikedik (eða rauðvínsedík)
50 gr suðusúkkulaði (eða dekkra), fínt saxað
Ofan á marengsinn
½ L rjómi
500 gr hindber eða önnur ber, t.d. jarðaber
3 tsk dökkt súkkulaði, gróft saxað
Aðferð
Hitið ofninn í 180°c og setjið bökunarpappír á ofnskúffu. Merkið hring, u.þ.b. 23 cm í þvermál, á pappírinn.
Þeytið eggjahvíturnar þar til þær eru dálítið stífar og bætið þá sykrinum við, rúmri msk í einu, þar til marengsinn er orðinn alveg stífur. Stráið kakóinu og edikinu yfir sem og súkkulaðinu. Blandið varlega saman með sleif (það sem kallað er á ensku „folding“) – það má ekki fara harkalega hér því þá fer allt loftið úr eggjahvítunum og marengsinn fellur. Setjið á bökunarpappírinn, innan hringsins og jafnið út. Setjið í ofninn en lækkið hitann strax í 150°c og bakið í 1 klst – 1 klst og 15 mín. Marengsinn á að vera þurr viðkomu en dúa aðeins í miðjunnu. Slökkvið á ofninum, opnið hurðina og leyfið marengsinum að kólna með ofninum.
Þegar á að bera pavlovuna fram er hún færð yfir á kökudisk, rjóminn þeyttur og smurt yfir marengsinn og berjunum dreift yfir. Að síðustu er súkkulaðinu dreift yfir. Borið fram helst samstundis, annars gefur marengsinn eftir undan rjómanum.