Ég tók mér langþráð frí um helgina, frá allri vinnu og námi. Ég er loksins búin með alla kúrsa í náminu mínu og „bara“ ein mastersritgerð sem bíður mín í skólanum meðfram vinnunni en ég þarf þá allavega ekki að mæta í neina fyrirlestra á meðan 🙂
Við nýttum semsagt helgina vel til almennrar leti og notalegheita. Ég bakaði vöfflur í gær (sem ég held að nálgist það að vera uppáháldsbakkelsi eldri sonar míns og er þó af nógu af taka þar) og svo er rúgbrauðið hans pabba að malla í ofninum núna.
Svo var það þessi pönnukökuuppskrift sem ég sá á einu matreiðslublogginu í vikunni og hugsaði með mér að ég yrði að prófa. Það er bara heilhveiti í þeim, engin olía né smjör, smávegis sykur og bananar. Það má meira að segja nota hvaða fituskertu mjólkurvöru sem er þegar kemur að bæði mjólkinni og jógúrtinni. Mér fannst pönnukökurnar mjög góðar, „flöffí“ og matarmiklar. Nammi namm – svo segir í upprunalegu uppskriftinni að þær frystist mjög vel, það varð nú ekki nógu afgangur hjá okkur til að testa það samt 🙂
Amerískar pönnukökur með heilhveiti og banönum
U.þ.b. 8 pönnukökur
170 gr heilhveiti
¼ tsk salt
2 tsk lyftiduft
1 tsk kanill (má sleppa)
1 egg (eða 2 eggjahvítur)
250 ml mjólk (léttmjólk, sojamjólk, hrísmjólk)
1 bananani, stappaður
2 msk púðursykur
65 gr hrein jógúrt (eða ab-mjólk, sýrður rjómi o.s.frv.)
½ tsk vanilludropar
Aðferð
Blandið saman heilhveit, salti, lyftidufti, kanil og sykri.
Blandið saman, í annarri skál, eggi, mjólk og banana. Bætið sykrinum, jógúrtinni og vanilludropunum út í og hrærið vel.
Blandið vökvanum við þurrefnin, ekki blanda of vel, einungis þar til eru ekki stórir hveitikekkir í deiginu.
Hitið pönnu á miðlungshita, smyrjið með smá smjöri, setjið tæpan dl af deigi á pönnuna fyrir hverja pönnuköku. Steikið þar til pönnukakan fer að „búbbla“ (þar til litlar loftbólur sjást og springa) og snúið þá við og steikið hinum megin í ca. 2 mín. í viðbót. Ég smurði pönnuna einu sinni til viðbótar (í upprunalegu uppskriftinni er talað um að smyrja/spreya fyrir hverja pönnuköku en ég gerði það ekki). Ef þær festast mikið við pönnuna er sjálfsagt að smyrja oftar.
Berið fram með t.d. ávöxtum og hlynsírópi.
Alveg ertu mögnuð í náminu Kristín, og þessar pönnukökur áreiðanlega himneskar.