Aðalréttir · Kjúklingaréttir

Kjúklingagratín með eplum og karrý

Kjúklingagratín með eplum og karrý

Það er búið að vera svo mikið að gera hjá mér undanfarið að ég hef varla haft tíma til að heilsa fjölskyldumeðlimunum hvað þá annað. Ég lauk í vikunni margra daga heimaprófi og um helgina átti svo að halda upp á 2 ára afmæli dótturinnar og ég var búin að ákveða að taka mér algjört frí um helgina til að elda og baka ofan í væntanlega afmælisgesti. Eitthvað fór það nú öðruvísi en ætlað var því heimasætan vaknaði lasin í gær og öll afmælisplön fuku þar með út í veður og vind. Ég gat samt ekki hugsað mér að eyða helginni í lestur og lærdóm og ákvað taka bara slökunarhelgi í staðin, uppfæra bloggið og skrifa niður uppskriftir sem ég ætlaði mér að setja á bleggið fyrir mörgum vikum (ef ekki mánuðum síðan). Ég ætla m.a.s. að baka fyrstu smákökurnar í dag, vinna mér aðeins í haginn í jólabakstrinum (þær eiga víst að frystast vel, en þær koma til með að fara beint í frystinn 😉 ) og blogginu.

Þegar ég fór aftur að vinna (og í skóla) eftir 2 ára hlé ákváðum við að prófa að nýta okkur ótrúlega sniðuga þjónustu sem býðst hér í Svíþjóð, þ.e. svokallað matarkassa. Þá gerist maður áskrifandi að mat og uppskriftum fyrir t.d. 5 daga aðra hvora viku og fær allt hráefni og uppskriftir sent heim að dyrum á 2 vikna fresti. Það eru til margar týpur af þessu hér en við völdum svokallaðan Barnakassa, þar sem maturinn er sniðinn að bragðlaukum barna (og fullorðinna líka reyndar). Það er skemmst frá því að segja að þetta er að slá í gegn á heimilinu, bæði hjá börnum og fullorðnum – maturinn er bæði hollur og góður og er bætir við skemmtilegri fjölbreytni í matarrútínuna á heimilinu og eftir bara 4 sendingar þá eru strax komnir nokkrir réttir sem við munum pottþétt halda áfram að elda.

Það er reyndar önnur saga að það væri gaman að setja einhvern tíman á bloggið ekta sænskan heimilismat eins og t.d. Korv Stroganoff sem er Medisterpylsa í nokkurs konar tómatsósu, en það var einmitt svipuð uppskrift sem kom í sendingunni um síðustu helgi. Ég ímynda mér að sumum íslenskum lesendum þætti þetta pínu skondið 🙂

Hvað um það, í fríinu í gær ákvað ég að finna eitthvað nýtt og skemmtilegt til að elda (þ.e. sjálf, ekki með hjálp Linu frá Linas Matkasse) og ákvað að leita í smiðju hins sænska Matklubben í gær, einu sinni sem oftar. Fyrir valinu varð þetta kjúklingagratín með eplum og karrý sem er ofarlega á topplista Matklubben og sem Binni sá um að galdra fram. Okkur tókst reyndar að mislesa uppskriftina aðeins, hrísgrjónin áttu ekki að vera „on the side“ heldur í botninum á eldfasta mótinu en það breytti engu, þetta var alveg súpergott þrátt fyrir það og greinilega góð ástæða fyrir öllu lofinu frá notendum Matklubben. Ég hugsa samt að við fylgjum uppskriftinni næst 🙂 Rétturinn hefði líka verið enn fljótlegri ef við hefðum notað grillaðan kjúkling en ekki bringur eins og upprunalega uppskriftin mælir fyrir um.

Allavega, ótrúlega góður réttur sem allir í fjölskyldunni borðuðu með bestu lyst 🙂

 

eldhussystur 007

Kjúklingagratín með eplum og karrý

Hráefni
1 grillaður kjúklingur (eða 6 – 800 gr. Kjúklingarbringur)
Olía
1 rauð paprika, skorin í bita
1 púrrulaukur, í sneiðum
1 gulur laukur, saxaður
3 hvítlauksrif, pressuð
1 – 2 súr epli, flysjuð og skorin í bita
200 gr sveppir (eða 1 dós sveppir), sneiddir
2,5 dl sýrður rjómi
2,5 dl matreiðslurjómi
1 dl mango chutney
3 msk tómatpúrra
1 tsk sambal oelek*
2 tsk karrý (venjulegt „íslenskt“ karrý, þ.e. ekki sterkt)
1 tsk paprikukrydd
Salt
Pipar
5 dl hrísgrjón
Rifinn ostur
Kokteiltómatar, niðursneiddir

Aðferð
Sjóðið hrísgrjónin skv. leiðbeiningum og látið þau kólna.

Skerið kjötið af kjúklingnum og skerið í litla bita (eða skerið bringurnar í bita og steikið á pönnu).

Steikið lauk, hvítlauk, púrrulauk, sveppi, epli og papriku upp úr smá olíu í potti ásamt karríinu þar til grænmetið er farið að mýkjast aðeins.

Hellið sýrða rjómanum, rjómanum, mango chutney, tómatpúrru, sambal oelek, paprikukryddi, salti og pipar yfir grænmetið og látið að síðustu kjúklinginn út í. Hrærið vel í og látið malla við vægan hita í nokkrar mínútur.

Setjið hrísgrjónin á botninn í eldföstu móti. Setið kjúklingahræruna yfir hrísgrjónin, stráið rifnum osti yfir og kokteiltómötum.

Bakið í miðjum ofni við 225 gráður, u.þ.b. 15 mínútur eða þar til osturinn er orðinn gullinbrúnn.

*Það má sleppa Sambal Oelekinu alveg (þetta er chilli mauk) eða setja smá chilli-duft í staðin 🙂

Ein athugasemd á “Kjúklingagratín með eplum og karrý

  1. Þægilegt að geta fengið svona matarpakka senda, sparar innkaupaferðir hjá önnum köfnu barnafólki sem er líka í námi. Við notum okkur að fá heimsendan mat, fyrst ætlaði ég bara að prófa en svo líkaði okkur þetta svo vel að við höldum því áfram, þetta er næstum eins og að borða úti, fjölbreytnin er mikil og næringargildið er reiknað út, einnig stærð skammta, þetta er hálfeldað og ég fullelda það venjulega í örbylgjunni, stundum elda ég samt ef okkur langar í eitthvað sérstakt, maður getur fengið einn mat eða bara helgarmat alveg eftir þörfum en þarf ekki að vera í fastri áskrift, þetta sparar mér innkaupaferðir eftir að ég varð alein og með afa í hjólastól því þá bættust við snúningar með hann, ferðir á Heilsugæsluna, til rakarans, í fótsnyrtingu og yfir götuna til að spila whist,

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s