Mig hefur lengi langað til að prófa að gera whoopie-pie smákökur, aðallega af því að mig langaði svo mikið til að smakka þær (mér finnst flestar kökur með kremi alveg vandræðalega góðar). Ég hef hins vegar frekar takmarkaða dundurs-þolinmæði og hef dálítið sett fyrir mig að það þarf að setja þær saman hverja og eina með kremi á milli. Þegar ég hnaut um uppskrift að whoopie pie köku, þ.e. heilli köku (en ekki 100 litlum smákökum sem þarf að dútla við) fannst mér alveg tilvalið að prófa! Ekki skemmdi fyrir að þrátt fyrir afar takmarkað úrval af amerískri „mat“vöru í Svíþjóð þá var akkúrat til Marshmallow Fluff út í búð hér rétt hjá okkur!. Semsagt, mér var ekkert að vanbúnaði og ég dreif í að baka.
Í uppskriftinni er notuð kökumix úr pakka en það er ekkert mikið til af slíku í Svíþjóð þannig að ég leitaði bara að uppskrift sem kæmi sambærilega út á netinu og notaði hana. Þetta er hinsvegar alveg tilvalin kaka ef maður er að flýta sér, nota bara betty crocker og vera ekkert að flækja málin. Ég veit ekki hvort Marshmallow Fluff fáist heima, ég vona það því mér fannst þetta krem (og kakan sjálf líka) alveg sjúklega gott og langaði svolítið að borða það bara með skeið 😛
Ath: ég gef upprunalega magnið af kreminu en þar sem fluffið nægði ekki alveg í 5 dl þá minnkaði ég kremið til samræmis, þetta voru svona 3/4 af kreminu og mér fannst það feikinóg af kremi 🙂
Whoopie-pie kaka
Hráefni
Kaka
1 pakki súkkulaðiköku mix (t.d. Devil‘s Food Cake frá Betty Crocker). + 1 auka egg miðað við leiðbeiningar.
Krem
225 gr smjör, mjúkt
5 dl Marshmallow fluff
7,5 dl flórsykur
Súkkulaði-ganache
175 gr suðusúkkulaði, í litlum bitum
1,25 dl rjómi
Aðferð
Kaka
Hitið ofninn í 180 gr. Og smyrjið tvö hringlaga form.
Búið til kökuna skv. Leiðbeiningum á pakka en bætið við auka eggi. Setjið deigið í formin tvö og bakið í 15 – 20 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn út. Leyfið kökunni að kólna alveg.
Krem
Hrærið smjör og Marshmallow Fluff þar til alveg mjúkt. Bætið flórsykrinum við í nokkrum skömmtum. Hrærið þar til alveg slétt. Setjið kremið á milli botnanna.
Súkkulaði-ganache
Hitið rjómann í litlum potti, næstum að suðu. Takið af hitanum og hrærið súkkulaðinu út í og þar til það er bráðnað. Látið kólna í ca. 10 mínútur (eða þar til kremið fer að þykkna) og hellið þá yfir kökuna.
Uppskrift fengin frá Cookies and Cups.
Ein athugasemd á “Whoopie-pie kaka”