Miðað við hversu hátt eplakökur standa á vinsældalistanum hjá mér og eiginmanninum þá er eiginlega með ólíkindum að ekki séu komnar fleiri uppskriftir hingað inn með eplum! Yfirleitt baka ég eplamylsnuböku þegar ég baka eplaeitthvað, sennilega því mér finnst það fljótlegt en um daginn bauð ég Binna að velja sér uppskrift úr Hembakat og þá varð þessi marsípaneplaka fyrir valinu. Alveg svona ekta afmælishlaðborðskaka – ótrúlega góð 🙂
Eplakaka með marsípani
Hráefni
150 gr marsípan
3 egg
1,5 dl sykur
50 gr smjör, bráðið
3 dl hveiti
1 tsk lyftiduft
3 tsk vanillusykur
1 dl mjólk
4 epli (lítil), flysjuð og skorin í sneiðar.
Aðferð
Ofninn stilltur á 175 gr. Smyrjið lausbotna form.
Rífið marsípanið niður og blandið með eggjunum, einu í einu (ég notaði hrærivél). Hrærið sykrinum saman við. Látið smjörið kólna aðeins og bætið út í.
Blandið hveiti, lyftidufti og vanillusykri saman. Blandið saman við eggjahræruna.
Bætið smjörinu og mjólkinni í deigið.
Leggið helminginn af eplunum í botninn á forminu. Hellið deiginu ofan á og leggið afganginn af eplunum ofan á deigið.
Bakið í miðjum ofni í 30 – 40 mínútur eða þar til prjónn kemur hreinn úr kökunni.
Mikið er gaman að skoða þetta skemmtilega og girnilega blogg ykkar. Ég prófaði þessa frábæru eplaköku í dag. Takk fyrir mig 😉
Bestu kveðjur Ingibjörg Stefánsd.
Takk fyrir það Ingibjörg mín og alltaf gaman að heyra að uppskriftirnar hafi heppnast vel 🙂