Ég verð aðeins að dásama þennan fallega kökudisk 🙂 Ég fór í sumar með Sirrý (sú sem gaf mér bestu rabarbara böku í geyminum) í Iittala outlet hérna á Skáni. Við litla fjölskyldan eigum ekki bíl, og því greip ég tækifærið og betlaði að við kíktum í þetta outlett, þegar þau komu í heimsókn á bílaleigubílnum sínum 😉 Það er óhætt að segja að ég hafi tapað mér smá (lesist rosalega mikið) þegar þangað var komið. Þessi krúttaði smákökudiskur var meðal annars eitt af því sem kom heim með mér.
Ég bakaði hálfa uppskrift og fékk útúr því 18 stk. Þessar hafrakökur eru stökkar utaná og mjúkar innaní. Halli sem er mikill áhugamaður um hafrakökur var mjög ánægður með þær, sem og restinn af fjölskyldunni.
Púðursykurshafrakökur
Innihaldsefni
1 bolli (225 gr) mjúkt smjör
2 bollar (440 gr) púðursykur
2 tsk vanilludropar
2 egg
1,5 bolli ( 200 gr) hveiti
1 tsk salt
0.5 tsk matarsódi
3 bollar ( 250 gr ) hafrar
Aðferð
Kveikið á ofninum á 175°C
Þeytið saman smjörið og púðursykurinn þar til það er létt og flöffí. Þeytið vanilludropunum saman við. Hrærið eggin saman við eitt í einu og passið að skafa niður deigið meðfram brúninni á skálinni á milli eggja.
Blandið saman þurrefnum (fyrir utan hafra) í aðra skál. Hrærið saman deiginu og þurrefnum í 2-3 hollum. Passið að hræra ekki of mikið, rétt nóg til að þurrefnin blandist saman við degið. Að lokum er höfrunum hrært saman við deigið, aftur þarft að passa að hræra ekki mikið.
Leggið bökunarpappír á ofnplötu. Setjið 1 msk af deigi á bökunarpappírinn með 3-4 cm millibili. Bakið í 12 -13 mínotur eða þar til þær eru gylltar. Ef þið viljið hafa þær stökkar þá má baka þær aðeins lengur.
Látið kökurnar kólan aðeins á pappírunum áður en þær eru settar á fat. Njótið 🙂