Sumarið í Svíþjóð hefur verið ansi gott (fullgott fyrir konur eins og mig sem fýla 15 gráður og skugga best) og ég held að ég hafi mögulega verið í einhverjum haust-dagdraumum (haustið er nefnilega uppáhálds árstíminn minn) þegar ég ákvað að elda þessa ótrúlega bragðgóðu tómatsúpu. Mér varð ekki að ósk minni frekar en fyrri daginn – við sátum enn og aftur og borðuðum heitan og haustlegan mat í yfir 20 stiga hita. Ég bar súpuna fram með focaccia-brauði sem ég baka stundum (uppskrift væntanleg) og úr varð einföld og ótrúlega bragðgóð máltíð. Næst ætla ég að gera enn meira af súpunni svo ég eigi meiri afgang til að hita upp, hún var auðvitað enn betri upphituð daginn eftir 🙂
Minestrone-súpa með beikoni
Fyrir 4
4 – 5 beikonsneiðar, skornar í bita.
2 gulrætur, afhýddar og niðursneiddar
2 kartöflur, afhýddar og niðursneiddar
3 hvítlauksrif
1 L vatn
2 kubbar kjötkraftur
1 dós nýrnabaunir (skolið og láta leka af þeim).
1 dós tómatar
50 gr. pasta (t.d. skrúfur eða fiðrildi).
Salt og pipar
Cayenne-pipar
Karrý
Setjið beikonið, gulræturnar, kartöflurnar og hvítlaukinn í pott og steikið yfir háum hita í ca. 5 mínútur og hrærið í á meðan.
Bætið kjötkraftinum, vatninu, baununum og tómötunum út í pottinn. Lækkið hitann aðeins og látið malla í u.þ.b. 30 mínútur eða þar til grænmetið er orðið mjúkt. Hrærið í við og við.
Bætið pastanu út í súpuna og sjóðið skv. leiðbeiningum á pakka. Kryddið að vild.