Kökublogg rúnturinn er reglulegt fyrirbæri, það kemur oftar en ekki fyrir að ég sé eitthvað sem ég svo get ekki hætt að hugsa um 🙂 Þessar smákökur fylgdu mér í nokkra daga áður en ég bugaðist og hreinlega varð að baka þær 😉
Innihaldsefni
2 bollar hveiti
1/2 bolli sykur
2 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1/4 tsk salt
113 gr kalt smjör
3/4 bolli buttermilk/súrmjólk
1 egg, slegið
Sulta að eigin vali
Aðferð
Hitið ofninn í 200°
Leggið bökunarpappír á ofnskúffu og leggið til hliðar.
Blandið saman hveiti, sykri, lyftidufti, matarsóda og salti í matvinnsluvél. Skerið smjörið niður í teninga og dreifið yfir hveitiblönduna. Mixið saman hveitiblöndunni og smjörinu þar til degið er svolítið eins og sandur. Bætið buttermjólk/súrmjólk saman við og mixið aftur ca 6-8 sinnum eða hrærið saman með gaffli. Setjið degið á borð sem er búið að strá hveiti á. Hnoðið degið þar til hægt er að móta smákökur. *Þegar ég gerði uppskriftina þurfti ég að bæta við heilum haug af auka hveiti svo degið hætti að loða við mig*
Rúllið út degið þannig að það sé vel þykkt (ca 3 cm). Skerið út smákökur og leggið á bökunarpappírinn. Þrýstið niður með þumlinum í miðjuna á hverja köku til að útbúa dæld fyrir sultuna. Sniðugt getur verið að þrýsta þumlinum tvisvar þannig að hjarta myndist.
Penslið kexið með egginu og stráið vel af sykri yfir. Setjið 1 tsk ca af sultu í dældina.
Bakið í 15 min eða þar til kexið er gyllt að lit.