Brauð og bollur

Fljótlegar skonsur með súkkulaðibitum

Fljótlegar skonsur með súkkulaðibitum

Við erum búnar að vera dálítið latar að setja inn uppskriftir að undanförnu við systurnar. Að hluta til má skýra það með því að tölvukostur Tobbu gaf upp öndina um daginn og það er ekki enn búið að ráða bót á því vandamáli þó það standi til á allra næstu vikum. (Einhver stakk upp á því við hana að hún tæki áskorun um að vera tölvulaus næsta árið – ég var fljót að mótmæla því hástöfum haha 😉 ) Allavega, ég held að bloggletin sé eitthvað að gefa eftir hjá mér. Ég er með nokkrar uppskriftir sem ég hef bakað að undanförnu sem ég á ennþá eftir að deila með netinu og þar á meðal þessar skonsur sem fylgja með þessari færslu!

Ég held ég sé næstum því ófær um að baka sömu uppskriftina tvisvar, og það er ekki einu sinni þessu bloggi að þakka (eða kenna…) – ég er endalaust að leita að einhverju nýju til að prófa! Ég bakaði þessar fljótlegu súkkulaðibitaskonsur um daginn – það þurfti ekkert að fletja út og vesenast þannig að þær eru sérstaklega fljótlegar miðað við aðrar skonsur sem ég hef prófað að baka. Ef þið eigið fullt af bónussúkkulaði upp í skáp sem þið þurfið að koma í lóg þá er þetta ágæt leið til þess 🙂 Gott er að hafa í huga að skonsur geymast ekki vel og þ.a.l. er best að baka þær um leið og maður ætlar að borða þær!

Fljótlegar skonsur með súkkulaðibitum

8 dl hveiti
1/2 tsk salt
2 tsk lyftiduft
1/2 dl sykur eða hrásykur
125 gr kalt smjör
1 egg
2 dl mjólk
100 gr súkkulaði (helst dökkt)

Stillið ofninn á 225 gr.

Blandið saman þurrefnunum (hveiti, salti, lyftidufti og sykri). Skerið smjörið í litla teninga og blandið allt saman í höndunum þannig að þetta verði að kornóttum massa. Setjið eggið út í og blandið öllu saman.

Hellið mjólkinni út í hnoðið deigið saman.  Hakkið súkkulaðið niður og bætið út í.

Klæðið ofnskúffu með bökunarpappír. Takið upp deigbita með matskeið (eða höndunum) og setjið  á ofnskúffuna (deigið dugar í ca. 9 – 10 skonsur). Bakið í miðjum ofni í ca. 15 mínútur og borðið strax – skonsur eru alltaf bestar nýbakaðar 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s