Þegar ég var unglingur bjó ég eitt ár í frönskumælandi hluta Kanada. Eins og margir eflaust vita þá er Kanada m.a. þekkt fyrir hlynsírópssframleiðslu, Québec er stærsti framleiðandi hlynsíróps í heimi og þar sem ég bjó (eiginlega út í rassi og bala) voru meira og minna allir með sína eigin litlu sírópsframleiðslu, áttu einhvern smá skika úti í skógi þar sem þeir söfnuðu sykrinum og bjuggu til síróp. Það er nú eiginlega skömm frá því að segja að ég hafði varla heyrt um hlynsíróp þegar ég flutti til Kanada og hafði nákvæmlega engan smekk fyrir því (þótt mér þætti gaman að smakka það beint úr sykurkofunum). Ég man m.a.s. eftir þvi að hafa verið send heim aftur til Íslands með nokkrar flöskur af heimagerðu hlynsírópi og ég held að ég hafi ekki einu sinni opnað þær flöskur, ég var svo lítið meðvituð um hversu dásamlegt innihaldið væri! En tímarnir breytast og mennirnir með: ef ég myndi flytja aftur til Kanada þá myndi ég örugglega drekka hlynsíróp í morgunmat, mér finnst það svo sjúklega gott og grátlegt að hugsa um öll töpuðu tækifærin þarna fyrir 20 árum til að úða því í mig í hvert mál (kannski á ég bara að vera fegin, skiptinemakílóin sem ég bætti á mig voru sennilega alveg nógu mörg án hlynsírópskílóa líka…)!
Allavega, í dag þá má ég varla sjá uppskrift með hlynsírópi í án þess að mig langi til að baka hana. Mér skilst að eftirfarandi uppskrift sé einhver frægur eftirréttur frá Applebee’s veitingastaðnum í Bandaríkjunum sem ég hef aldrei borðað á og þekki ekki til en þegar ég rakst á hana fyrir mörgum árum þá var það akkúrat hlynsírópssósan sem öskraði á mig: „bakaðu mig!“. Okkur finnst þetta sjúklega gott en þetta er vissulega ótrúlega sætt og ég held að „minna er meira“ eigi vel við hérna, þ.e. það er alveg nóg að fá sér litlar sneiðar af blúndunum og það þarf ekki að drekkja þessu í sósu heldur 😉
Blúndur (blondies) með hlynsírópssósu og ís
Blúndur
2,5 dl hveiti
1/2 tsk lyftiduft
1/8 tsk matarsódi
1/8 tsk salt
1,25 dl saxaðar valhnetur (valfrjálst)
75 gr smjör
2,5 dl ljós púðursykur (eða hvítur sykur og dökkur púðursykur til helminga).
1 egg, slegið í sundur
1 tsk vanilludropar
1,25 dl hvítt súkkulaði í litlum bitum.
Hlynsírópssósa
1,8 dl hlynsíróp
150 gr smjör
1,8 dl ljós púðursykur (eða hvítur sykur og dökkur púðursykur til helminga).
1,25 dl valhnetur, hakkaðar (valfrjálst)
Aðferð:
Ofninn hitaður í 175 gr. c.
Blúndurnar: Hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti blandað saman. Hökkuðum hnetum bætt saman við og blandað saman. Sett til hliðar.
Bræðið smjörið, bætið púðursykrinum út í og blandið vel. Bætið eggi og vanilludropum út í og blandið vel. Bætið hveitiblöndunni út í í nokkrum skömmtum og blandið vel saman. Blandið súkkulaðinu út ít. Setjið í lítið ferhyrnt form (ca. 25 x 25 cm). Bakið í 20 – 25 mínútur eða þar til pinni kemur hreinn upp úr kökunni.
Sósan: Setjið síróp og smjör í pott og bræðið yfir lágum hita þar til smjörið er bráðnað. Hrærið púðursykrinum út í þar til hann er uppleystur. Setjið valhneturnar út í.
Skerið blúndurnar í litla bita og berið fram með ís og hlynsírópssósunni.
Ég hef einu sinni borðað á Applebies. Og það var í Stokkhólmi fyrir mörgum árum. Staðurinn var í húsi sem stendur við E4, á hægri hönd, á leiðinni út úr borginni. Hugsanlega í Kista eða álíka.
Heyrðu, ég gúgglaði þetta nú bara og Applebees var semsagt í Barkarby outletinu. Ei meir – en það er kannski alltílagi miðað við það sem Sonja segir 🙂
Ó hlynsíróp er svo frábært og það er Québec líka! Ég var þar í fríi síðasta sumar og var mjöööög hrifin af landi og þjóð 🙂
Já, það er eiginlega vandræðalegt að segja frá því að ég hef ekki farið þangað aftur síðan árið 1994, eins og mig langar – fannst þetta yndislegt land/fylki. Klárlega á stefnuskránni að fara aftur þegar ég hef tök á 😀
Þú hefur ekki misst af miklu að hafa ekki borðað á Applebees. Ég er viss um að kakan þín er miklu betri en nokkur eftirréttur sem fæst þar 😉
Það er talsvert um það að fólk búi til hlynsýróp hérna í SA Ohio. Ein prjónavinkona mín m.a.s. Nammi namm.
Haha – nei ég bjóst svosem ekki við því að þetta væri neinn gúrmei staður. Annars veit ég eiginlega ekki hvernig heimagert hlynsíróp smakkast, því má kenna um lélegum unglingssmekk mínum!