Um daginn keypti ég fáránlega stóra krukku af Nutella og notaði það m.a. í Nutella-horn. Það er eiginlega ekki hægt að eiga svona lagað á þessu heimili (ekki það að mér finnst þetta ekkert sérstaklega gott) en börnin vita af þessu upp í skáp og vilja helst fá Nutella ofan á brauð í allar máltíðir dagsins þangað til að krukkan klárast. Ég sá mér þann kost því vænstan að klára bara árans krukkuna og þá var nú gott að vinkona mín hafði bent mér á þennan girnilega snúning á pull-apart brauðinu frá Joy the Baker.
Þetta var alveg sjúklega gott brauð, jafnvel þó maður sé ekkert voðalega hrifinn af Nutella. Ég mæli þó með því að þið gefið ykkur góðan tíma í undirbúning því hefunin tekur nokkru lengri tíma en á venjulegu gerdeigi (fannst mér allavega, nískan í að kynda upp húsið okkar hérna spilar mögulega inn í ? 😉 )
Pull-apart brauð með nutella og sjávarsalti
Deig:
390 gr. hveiti (3 bollar)
50 gr. sykur (1/4 bolli)
2 1/4 tsk þurrger
1/2 tsk salt
60 gr smjör, mjúkt
80 ml mjólk (1/3 bolli)
60 ml vatn (1/4 bolli)
2 stór egg,
1/2 tsk vanilludropar
Fylling:
1,5 – 2, 5 dl Nutella (1/2 – 1 bolli)
1 – 2 matskeiðar saltflögur
Aðferð:
Blandið mjólk, vatni, geri og smá sykri saman í hrærivélarskálinni (eða annarri ef þið ætlið að hnoða í höndunum). Látið standa þar til freiðir aðeins, ca. 5 mínútur.
Bætið hveiti, sykri, salti, smjöri og eggjunum út í vökvann og hnoðið með deigkróknum þar til deigið er orðið slétt og mjúkt (og kannski örlítið klístrað). Látið deigið hefast í ca. 2 klst eða þar til það hefur tvöfaldast. (ATH: þetta deig var alveg 2 klst að hefa sig hjá mér þannig að gefið þessu góðan tíma)
Fletjið deigið út í 30 x 50 cm rétthyrning. Smyrjið deigið með nutella og setjið saltið á. Skerið síðan deigið í 6 jafnlangar ræmur sem þið staflið ofan á hverja aðra. Skerið staflann í 6 jafnstóra bita. Smyrjið brauðform að innan og setjið deigbitana í formið. Hyljið með viskastykki og látið hefa sig í ca. klst.
Hitið ofninn í 175 gr. c. og bakið brauðið í 20 – 30 mínútur eða þar til það er orðið gullinbrúnt að ofan. Látið kólna aðeins áður en þið hvolfið úr forminu og berið fram. Njótið 🙂
Þetta hljómar aðeins of vel…. 🙂 Eitt sem ég er ekki aaalveg að ná. Þetta með að skera staflann í sex bita (það skil ég…) en hver er tilgangurinn? Hvernig raðar maður þessum sex bitum í formið? Þeir eiga allir að fara í eitt form er það ekki?
Þetta „pull-apart“ dæmi er alveg nýtt fyrir mér sko 😉
Sko, tilgangurinn er að búa til litla ferhyrninga sem maður setur ofan í formið, sést betur hér: http://www.flickr.com/photos/22540992@N03/5503472051/
og svo hér (óbakað): http://www.flickr.com/photos/22540992@N03/5503441761/
Þú ert semsagt ekki að fara leggja lengjurnar ofan í formið heldur búa til litla ferninga sem raðast hver framan við annan eftir forminu endilöngu (en ekki OFAN Á hver annan) 🙂