Ég var búin að búa í Svíþjóð í meira en tvö ár þegar ég smakkaði fyrst Semlu – sænska rjómabollu. Svíarnir eru dálítið grand á því í bolluáti og semlur eru seldar alveg frá því í byrjun janúar og fram á vor. Þegar ég loksins hafði það af að smakka dýrðina þá varð ekki aftur snúið – þvílíkt nammi. Í sænskum bollum er nefnilega marsípankrem í staðin fyrir sultu og mér finnst marsípan alveg sérstaklega gott! Þar að auki finnst mér bollurnar sjálfar einstaklega góðar, mikið léttari en þessar venjulegu íslensku gerbollur.
Ég ákvað þess vegna í dag að prófa að gera alvöru sænskar semlur og nota þær líka fyrir íslensku bollurnar – mér finnst nefnilega báðar fyllingarnar betri. Sænska bolluuppskriftin var samt svo góð að ég held ég þurfi ekki að gera þá íslensku aftur – mér finnst hún mikið betri 🙂
Sænskar bolludagsbollur
Bollur
50 gr ferskt ger (eða 5 tsk þurrger)
150 gr smjör
5 dl mjólk
1,5 dl sykur
1/2 tsk salt
1 tsk vanillusykur
2 tsk steyttar kardimommur (ég notaði ca. hálfa tsk kardimommukrydd og það kom ljómandi vel út)
ca. 14 dl hveiti
Egg, slegið sundur til að pensla með
Fylling
400 gr marsípan
1 dl mjólk eða vatn
5 – 6 dl af rjóma (magn miðast við óþeyttan)
Til skreytingar
Flórsykur

Smjör brætt í potti, mjólkinni hellt út í og hitað að ca. 37 gr. Hellt í skál, ger mulið út í (eða þurrgeri bætt við) og leyst upp í volgum vökvanum. Sykri, salti, kardimommu og vanillusykri bætt við og hrært aðeins.
Hveiti bætt við vökvann í nokkrum skömmtum meðan verið er að hnoða (ég notaði að sjálfsögðu Kitchen aidið) og hnoðað þar til deigið verður mjúkt og þægilegt að vinna með – deigið er hnoðað í ca. 5 – 10 mínútur. Deigið látið hefast þar til það hefur tvöfaldast að stærð.
Deiginu er skipt í 2 hluta. Hvorum deighelming er rúllað upp í lengju og skorinn í 6 jafn stóra bita. Hver biti mótaður í bollu sem eru svo lagðar á bökunarplötu (með bökunarpappír). Bollurnar látnar hefa sig í ca. hálftíma á plötunni.
Ofninn hitaður í 200 gr. c. Bollurnar penslaðar með egginu og bakaðar í miðjum ofni í 12 mínútur. Bollurnar látnar kólnar og svo skornar í tvennt.
Fyllingin er útbúin með því að rífa niður marsípanið með rifjárni og blanda saman við mjólk eða vatn (ég mæli með mjólk). Fyllingunni er smurt á bollurnar, þeyttur rjómi settur ofan á hverja bollu og svo lokað. Stráið flórsykri yfir til skreytingar.

Ath: hveitið er gefið upp ca., en mín reynsla er sú að þegar maður er með gerdeig þarf maður stundum að bæta við hveiti og stundum að nota aðeins minna, það fer svolítið eftir dagsforminu á hveitinu 🙂
