Nú eru bara örfáir dagar eftir af árinu og þar með áskoruninni sem ég og Tobba systir tókumst á hendur. Hún var semsagt að prófa eina nýja uppskrift að köku eða öðru sætabrauði fram að jólum 2012. Í desember breyttum við svo aðeins um stefnu og bökuðum bara jólatengdar kökur í nokkrar vikur 🙂 Ég held að þetta hafi nú bara heppnast ágætlega hjá okkur systrunum, ég prófaði ýmislegt nýtt sem ég á örugglega eftir að baka aftur og held að sama gildi um systur mína.
Við veltum því fyrir okkur hvort við ættum að láta staðar numið hér en það er auðvitað ekki hægt þegar maður er kominn af stað – sérstaklega ekki eftir að ég fékk nýja myndavélarlinsu í jólagjöf sem mig klæjar í puttana að nota. Kannski það komi fleiri mataruppskriftir inn núna þegar ég get tekið myndir á kvöldin af mat sem láta matinn ekki líta út fyrir að vera skelfilega ógirnilegur!(auðvitað sökum birtu og annarra óhagstæðra ytri skilyrða, það getur ekki verið að ég einfaldlega kunni ekki nógu vel á vélina 😉 )
Hvað um það, við systurnar urðum sammála að halda áfram að skrásetja eldhúsævintýrin hjá okkur enn um sinn. Við þurfum samt að finna nýja áskoranir til að leyfa ykkur að fylgjast með. Og hvað er meira viðeigandi í janúar heldur en að reyna fyrir sér í hollustubakstri? Við skulum vona að hann verði ekki allur eins og misheppnuðu möffinsin mín (ég lofa samt að vera heiðarleg og viðurkenna hér í hvert sinn sem ég klúðra einhverju í eldhúsinu). Annars ætti maður kannski ekki að lofa hollustu beinlínis en frekar segja „hollari“ bakstri 😉
Hvað um það. Uppskrift dagsins er svo sannarlega engin hollustuuppskrift heldur uppskrift að kanilsnúðum sem kemur til okkar frá Noregi í gegnum mömmu. Þannig var að fyrir tæpum 30 árum var hjá fjölskyldunni einn vetur norsk Au-Pair að nafni Unni. Unni bakaði þessa líka ferlega góðu kanilsnúða (eða kanilsnegler eins og mig minnir að þeir hafi heitið á norsku) sem urðu eiginlega að fjölskyldusnúðunum okkar. Við erum eflaust búnar að borða þessa snúða í tonnatali á lífsleiðinni 🙂 Ég á sérstaklega góða kanilsnúðaminningu frá því þegar ég átti að vera sofnuð en lá upp í rúmi og las Emil í Kattholti meðan mamma og Unni stóðu í eldhúsinu og bökuðu snúða. Ég stalst fram á 10 mínútna fresti til að stela mér snúði (og var sannfærð um að þær tækju ekkert eftir þessu) og lá svo í rúminu og úðaði í mig kanilsnúðum með súkkulaðiglassúr. Mörgum árum seinna rakst ég á Emilsbókina og hún var bókstaflega löðrandi í glassúr eftir kvöldið góða. Sennilega er bókin ennþá upp í hillu hjá foreldrum mínum, með þykku lagi af eitís glassúr 🙂
Mamma og pabbi komu í heimsókn til okkar núna í desember og mamma skellti að sjálfsögðu í snúðana góðu. Mamma nennir nú ekki að baka þetta fyrir þessar örfáu snúða sem koma úr einu kg af hveiti og tvöfaldaði að sjálfsögðu uppskriftina og núna bíða okkar margir pokar af snúðum í frysti sem við getum dregið fram og yljað okkur við langt fram á vor 😀
Hvað um það. Hér kemur uppskriftin (ath að hún er nokkuð stór):
Norsku kanilsnúðarnir hennar Unnar
150 gr kalt smjör (upphaflega uppskriftin kallar á smjörlíki en ég nota yfirleitt ekki slíkt í mínum bakstri)
6 dl mjólk
2 egg
75 gr ferskt ger (7,5 tsk eða 22,5 gr þurrger)
2 dl sykur
1/2 tsk salt
1 tsk kardimommukrydd
1 kg hveiti
Öllum þurrefnum blandað saman. Smjörið mulið saman við. Eggin slegin í sundur og blandað saman við mjólkina. Gerið leyst upp í eggjamjólkublöndunni (eða þurrgerið ef því er að skipta, það mætti líka setja þurrgerið beint út í hveitiblönduna og blanda ásamt hinum þurrefnunum) og henni svo hrært saman við þurrefnin. Hnoðað vel (í höndum eða í hrærivél). Látið lyfta sér í ca. klst. Flatt út í ferhyrning og kanilsykri stráð yfir (magn er smekksatriði 😉 og svo rúllað upp og skorið í bita. Látið lyfta sér aftur í ca. hálftíma. Bakað við 180 gr. þar til gullinbrúnir.
Á okkar heimili er vaninn að setja súkkulaðiglassúr á þessa snúða. Engin geimvísindi á bak við glassúrinn, bara kakó, flórsykur og vatn blandað saman 🙂
Ekki að það skipti öllu máli en það var hún Unni ekki Unnur sem var hjá okkur. Ég hef oft þakkað henni í huganum fyrir þessa frábæru snúðauppskrift.