Í ljósi þess að desember er rétt handan við hornið og vegna þess að það er búið að snjóa örlítið hjá mér í dag þá finnst mér rétt að taka tvist á áskoruninni og baka bara jólabakstur fram að jólum.
Ég er ekkert endilega bara í hefðbundnum jólasmákökum í desember, mér finnst gaman að prófa nýjar kökur í desember (ásamt gömlum „standördum“). Ég var búin að bookmarka þessar oreo-smákökur fyrir dálitlu síðan og fannst tilvalið að baka þær í þessu hálfgerða slagveðri sem búið er að vera hérna í Stokkhólmi.
Ég ætla að vara ykkur við: þetta eru ekki dúllulegar og nettar smákökur. Nei, þetta eru sannkallaðir amerískir hlunkar! Og góðar eru þær, mjúkar að inna og alltsaman. Sennilega vegna þess að ég nennti að kæla deigið í u.þ.b. klst áður en ég bjó þær til. Nammi nammi – verði ykkur hlunkakökurnar að góðu 🙂
Súkkulaðibitasmákökur með oreo-kexi
Hráefni
225 gr mjúkt smjör
3/4 bolli púðursykur
1 bolli sykur
3 egg (eða 2 stór)
1 tsk vanilludropar
3,5 bollar hveiti
1 tsk flögusalt (t.d. maldon)
1 tsk matarsódi
100 gr súkkulaði í bitum
20 oreokexkökur
Þeytið saman smjör og sykur þar til létt og ljóst, annað hvort í hrærivél eða með handþeytara. Bætið við eggjum, einu í einu, og skafið hliðarnar á skálinni á milli. Bætið vanilludropum út í.
Hrærið vel saman hveiti, salt og matarsóda. Blandið hveitiblöndunni saman við eggja/sykurblönduna ásamt súkkulaðibitunum og hrærið. Á þessum tímapunkti kældi ég deigið í ca. klst.
Takið ca. 2 msk af deigi og fletjið örlítið út, setjið oreokexköku ofan á og svo aðrar 2 msk af deigi og setjið ofan á oreo-kökuna (sjá mynd, þið verðið að taka nóg af deigið til að passa utan um kökuna). Þrýstið saman og lokið á hliðunum þannig að úr verði smá svona kökubolti.
Setjið kökurnar á plötu sem búið er að klæða með bökunarpappír og bakið í rúmar 10 mínútur, svona aðeins eftir því hvað þið vilið hafa smákökurnar ykkar dökkar.
Þegar kökurnar hafa bakast látið þær kólna á plötunni í nokkrar mínútur áður en þið færið þær.
Ég fékk u.þ.b. 20 kökur úr uppskriftinni.
Ég var þeirrar ánægju aðnjótandi að Stína skildi eftir 2 stk fyrir mig til að smakka þegar ég kíkti í heimsókn, ég skal votta um það að þessar kökur eru guðdómlegar 🙂