Ég bakaði þessar smákökur fyrir nokkrum árum síðan og þær koma alltaf upp í hugann af og til þannig að ég ákvað að henda uppskriftinni hérna inn til að fleiri gætu notið hennar. Það var mjög auðvelt að búa til þessar kökur og svo eru þær þægilegar fyrir augað líka 😉 Ég notaði saltaðar jarðhnetur og kom það ekki að sök þar sem ég er salt-sjúk! Uppskriftin kemur úr smiðju hennar Bakerellu.
Í þessari ofureinföldu uppskrift eru bara fimm hráefni:
1 bolli hnetusmjör
1/2 bolli sykur
1 egg
100 gr bráðið súkkulaði
1/2 bolli fínt hakkaðar jarðhnetur
Hitið ofnin í 160°C
Hrærið saman hnetusmjöri, sykri og eggi þar til hræran er silkimjúk.
Kælið deigið í ísskáp í 30 mínútur.
Búið til 18 kúlur úr deiginu og leggið þær á bökunarpappír.
Þrýstið á hverja kúlu með gaffli, þversum og langsum.
Bakið í 18-20 mínútur eða þangað til kökurnar eru létt brúnaðar.
Kælið kökurnar alveg.
Á meðan kökurar kólna er ráð að hakka jarðhneturnar og bræða súkkulaðið.
Þegar kökurnar eru orðnar alveg kaldar er einum enda dýft í brætt súkkulaðið og strax þar á eftir í hnetukurlið.
Setið kökurnar aftur á bökunarpappír og leyfið súkkulaðinu að harðna aftur.