Binni gaf mér einu sinni bók sem heitir „the essential baking cookbook“ sem inniheldur fullt af girnilegum uppskriftum. Ég hef því miður alls ekki verið nógu dugleg að baka upp úr henni en það litla sem ég hef prófað hefur aftur á móti heppnast mjög vel. Í ljósi þess að við fengum gesti í hádegismat í dag fannst mér þ.a.l. upplagt að velja uppskrift úr bókinni góðu til að prófa. Fyrir valinu varð appelsínukaka með valmúafræjum. Ansi vel heppnuð – bæði börnum og fullorðnum fannst hún mjög góð 🙂
Hér er því komið mitt innlegg nr. fjögur í áskorunina okkar Tobbu!
Appelsínukaka með valmúafræjum
185 g hveiti
3 tsk lyftiduft
60 gr. malaðar möndlur
4 msk valmúafræ
185 gr smjör
160 gr sykur
4 msk apríkósumarmelaði (eða sulta)
2-3 tsk appelsínubörkur, rifinn
80 ml appelsínusafi
3 egg. slegin sundur
Krem
100 gr smjör, mjúkt
100 gr rjómaostur, mjúkur
125 gr flórsykur (ég notaði miklu meira, sennilega nær 250 gr, til að fá þá þykkt á kremið sem ég vildi)
1 tsk sítrónusafi
Ofninn hitaður í 180 gr. Hringform smurt að innan.
Kaka: Hveiti, lyftidufti, möndlum og valmúafræjum blandað vel saman og lagt til hliðar.
Smjör, sykur, marmelaði, appelsínubörkur og appelsínusafi sett í pott. Hrært saman við lágan hita, þar til smjörið er alveg bráðnað.
Smjörblöndunni blandað í 2 – 3 skömmtum saman við hveitiblönduna með þeytara (ekki rafmagns) þar til blandan er orðin slétt.
Eggjunum bætt út í blönduna og þeytt þar til allt er vel blandað.
Hellt í formið og bakað í 50 – 60 mínútur eða þar pinni kemur hreinn úr miðri kökunni. Látið kólna í forminu í 15 mínútur áður en kakan er tekin úr því og látin kólna alveg.
Krem: rjómaosturinn og smjörið blandað saman þar til mjúkt og slétt. Flórsykurnum og sítrónusafanum blandað saman við þangað til kremið er orðið þykkt og mjúkt (eins og ég segi þá þurfti ég miklu meira en 125 gr flórsykur til að ná þykku kremi).
Myndi ég baka kökuna aftur? Já – kakan var hæfilega rök og djúsí og gott appelsínubragð af henni. Mjög fljótgerð og það fannst öllum hún góð sem hlýtur að teljast kostur 🙂 Annars hefði líka alveg mátt sleppa kreminu held ég, kakan stendur alveg ein og sér og er þá bara aðeins minna djúsí 🙂