Það er svo sannarlega komið vor í Stokkhólmi – í dag var hitinn í tveggja stafa tölu og allt hverfið komið út til að vinna vorverkin eins og sönnum Svíum sæmir 🙂

Eins og sannri Stínu sæmir, varð mér hins vegar hugsað til nýjasta tölublaðs Hembakat og ákvað að finna eitthvað girnilegt til að baka úr því. Fyrir valinu urðu þessi lekkeru muffins – mér fannst þau svo skemmtilega vorleg og minna á að páskarnir (og páskafríið) er á næsta leiti.
Páskamuffins1
100 gr dökkt súkkulaði
3 egg
2,5 dl sykur
1 tsk vanillusykur
100 gr smjör
1 dl mjólk
3,5 dl hveiti
2 tsk lyftiduft
3 msk kakó
Krem
50 gr smjör
50 gr dökkt súkkulaði
3 dl flórsykur
Vatn eða kallt kaffi, ef þarf
Til skrauts
40 smáegg
Dökkt súkkulaði, spænir
Aðferð
Stillið ofninn á 175°c
Bræðið súkkulaðið. Þeytið egg, sykur og vanillusykur í hrærivél þar til létt og ljóst.
Bræðið smjörið á lágum hita í potti. Hellið mjólkinni út í ásamt súkkulaðinu og hrærið saman. Hrærið niður í eggjablönduna.
Blandið hveiti, lyftiduft og kakói í skál. Blandið varlega saman við eggjablönduna.
Setjið í möffinsform – bakið í ca. 20 mínútur. Látið kólna.
Krem
Bræðið smjör og súkkulaði saman í potti. Hrærið vel og bætið svo flórsykrinum út í. Ef kremið er of þykkt, notið þá vatn eða kallt kaffi til að mýkja það aðeins. Sprautið hring (hreiðri) á muffuinsið. Setjið nokkur egg í miðjuna á hreiðrinu og setjið súkkulaðispæni á kantana.
