Eins og fram hefur komið hérna þá er Ágústa mín með laktósaóþol. Þegar við fluttum til Svíþjóðar kom það okkur mjög á óvart hvað það var til mikið úrval af laktósfríum vörum þar. Á litla Íslandi var ekkert slíkt í boði og notuðum við mikið sojamjólk og hrísmjólk, enda þekktum við ekki annað. Þegar við komum heim aftur var markaðurinn alllllt öðruvísi hérna heima, Arna var tekin til starfa og með þeim er úrvalið af mjólkurvörm sem ég get notað í baksturinn orðinn margfalt á við það sem ég var vön áður 🙂 Sökum óþolsins hefur Ágústa aldrei smakkað svona rjómakaramellur. Mér fannst því tilvalið að gera þessar karamellur núna fyrir jólin og þær fá topp einkunn frá Ágústu og núna getur hún ekki beðið eftir því að fá að borða þær.
Vanillukaramella með saltflögum
1 peli rjómi
5 msk smjör, í litlum bitum
½ tsk vanilladropar
1 vanillustöng, skorinn í helminga og skafið innan úr
1 ¼ tsk sjávarsalt (og dálítið til viðbótar til að strá yfir karamelluna)
1,25 dl sykur
0,6 dl ljóst sýróp
0,6 dl vatn
Setjið bökunarpappír í 20×20 cm eldfast mót, og smyrjið svo bökunarpappírinn.
Setjið rjóma, smjör, vanilludropa, vanillustöngina, vanillufræin og saltflögurnar í pott og látið suðuna koma upp. Takið þá af hitanum og setjið til hliðar.
Setjið sykur, síróp og vatn í pott og látið suðuna koma upp, hrærið í pottinum þangað til sykurinn hefur leysts upp. Látið sjóða án þess að hræra, en hreyfið sleifina rólega í pottinum þangað til blandan hefur tekið á sig gullinbrúnan lit.
Fjarlægið vanillustöngina úr rjómablöndunni og hellið henni svo út í sírópið (blandan á eftir að sjóða duglega þegar það gerist, hrærið vel í á meðan) og látið malla, hrærið oft í á meðan, þangað til að blandan mælist 120°c (það er mikilvægt að karamellan nái 120° ef hún nær ekki þessum hita mun hún ekki harðna). Hellið strax í ofnfasta mótið og látið kólna í 30 mínútur. Stráið örlitlu sjávarsalti yfir og látið standa þar til karamellan hefur kólnað alveg. Skerið í ca. 2,5 cm stóra bita (mjög gott að nota pizzahníf)