Það kannast örugglega allir við að detta niður í algert hugmyndaleysi í eldhúsinu og elda það sama viku eftir viku eftir viku. Við erum búin að vera ganga í gegnum slíkt tímabil að undanförnu þannig að ég ákvað að taka mig (okkur) á og fara að leita að smá innblæstri á netinu. Það var einmitt í slíkri innblástursleit sem ég rakst á þessa uppskrift að innbökuðu nautakjöti og ég verð að segja að það kom mér virkilega á óvart hvað þetta var bæði einfalt og gott. Öll börnin boruðuðu þetta með bestu lyst (það verður ekki sagt um allt sem er eldað á heimilinu…) og yngsti heimilismeðlimurinn tilkynnti okkur margsinnis yfir matnum að þetta væri “mikið gott” (mögulega smá sænskuskotin íslenska þar á ferð 😉
Innbakað nautahakk
500 gr. nautahakk
1 pakki tacokrydd
1 kúla mozzarellaostur (eða annar ostur að vild)
1 pakki smjördeig
Egg
Sesamfræ
Steikið hakkið á pönnu, blandið tacokryddinu saman við skv. leiðbeiningum á pakka (passa að setja vatn með svo blandan verði ekki of þurr).
Fletjið smördeigið út og skerið í ferninga. Setjið kjöthakk á hvern ferning, dálítinn ost ofan á og klemmið svo smjördeigið saman utan um. (Stærð smjördeigsins og hversu mikið af hakki fer á þetta fer dálítið eftir smekk – sjá myndir hér að neðan)
Penslið smjördeigið með eggi og stráið semsamfræum ofan á.
Bakið við 225 gr. þar til gullinbrúnt. Berið fram með salati og sósunni hér að neðan.
Hunangssósa
2 dl sýrður rjómi
1/2 dl majónes (létt majónes ef vill)
1 hvítlauksrif
1/2 – 1 msk hunang
Salt og Pipar
Hrærið öllu saman og geymstí kæli í 1 – 2 tíma