Elsti strákurinn minn átti að koma með eitthvað góðgæti með sér í halloween-partý í skólanum í vikunni og ég sem var nýbúin að sjá fullt af flottu halloween-gúmmelaði um síðustu helgi datt strax í hug frekar ógeðslegir nornaputtar sem ein fjölskyldan hafði komið með sér þá. Ég fann einfalda uppskrift og við Hilmir hjálpuðumst að við að búa þá til.
Grænir nornafingur
230 gr smjör, mjúkt
2,5 dl flórsykur
1 egg
1/2 tsk möndludropar
1/2 tsk vanilludropar
6,5 dl hveiti
1 tsk lyftiduft
Grænn matarlitur
Ein lítil túba af rauðu geli til skreytingar
Möndlur, afhýddar eða ekki.
Þeytið saman smjör, sykur, egg, möndlu- og vanilludropana. Hrærið vel saman við hveiti og lyftidufti. Bætið græna matarlitnum út í og hrærið vel, magn matarlits er smekksatriði.
Pakkiði deiginu inn í plastfilmu og geymið í kæli í 30 – 60 mínútur.
Takið deigið út, takið ca. msk af deigi og búið til aflangan fingur (eins og vindill í laginu). Þrýstið einni möndlu á endann á fingrinum til að búa til “nögl”. Kreistið miðju fingursins til að búa til hnúa, notið t.d. tannstöngul til að búa til raufir. (Sjá myndir til leiðbeiningar).
Setjið fingurna á bökunarpappír. Bakið við 160 gr. í 20 – 25 minútur. Þegar fingurnir eru kólnaðir setjið þá örlítið rautt gel við hverja nögl til að líkja eftir blóði.
Gerir 30 – 40 kökur.

Hér vorum við að búa til hnúa með því að ýta í miðju hvers fingurs. Reyndar átti að klípa í deigið sitt hvoru megin en ekki þrýsta niður en hvað um það 🙂

Við notuðum tannstöngla til að búa til rendur í fingurna

Við notuðum wilton skreytingargel til að búa til blóðið í kringum neglurnar.