Þegar við fjölskyldan fluttum til Svíþjóðar 2006 tóku drengirnir okkar algjöru ástfóstri við nákvæmlega eitt sem var matarkyns: „hringabrauð“. Og þegar við fluttum aftur heim 2008 var þetta u.þ.b. það eina sem þeir söknuðu frá Svíþjóð. Ég held í alvöru að þeir hefðu getað lifað á þessu brauði einu saman (svona næstum því). Brauðið vinsæla kallast „polarbrauð“ (stundum kallað polarkaka líka) og fæst í óteljandi útgáfum hér í Svíþjóð. Það voru m.a.s. ófáir gestir sem töluðu um að þeim þætti það sérstaklega gott og fóru heim með nokkra stóra poka í ferðatöskunni. Stundum fékkst það m.a. í Bónus heima og þá var sko veisla!
Mér hafði aldrei dottið í hug að kíkja á uppskrift af gómsætinu, þ.e. ekki þangað til ég fékk nýjasta hefti hembakat en þar var slíka uppskrift að finna. Kemur þá auðvitað í ljós að það er minnsta mál í heimi að baka pólarbrauð, og alveg upplagt á dálítið lötum laugardegi. Og er það ekki líka þannig að brauð er aldrei betra en þegar það er nýbakað heima og volgt, með smá smjöri? Það fannst okkur fjölskyldunni allavega fyrr í dag, þar sem við sátum og röðuðum því í okkur 🙂
Pólarbrauð
20 st.
50 gr. smjör
5 dl vatn
50 gr ferskt ger/ 5 tsk þurrger
3 msk ljóst síróp
1 tsk salt
Ca 16 dl hveiti (eða rågsikt)
Aðferð
Bræðið smjörið, setjið vatnið út í og velgið upp að u.þ.b. 37 gr. Myljið ferska gerið niður og leysið upp í vökvanum/ eða stráið þurrgerinu út á volgan vökvann. Þegar gerið er uppleyst blandið þá sírópinu og saltinu saman við vökvann.
Setjið megnið af hveitinu í skál (14 – 15 dl) og hellið vökvanum út á. Hnoðið (í höndum eða í vél) þar til deigið losnar auðveldlega frá skálinni. Bætið við hveiti eftir þörfum Látið hefa sig í u.þ.b. 30 mín.
Stillið ofninn á 250 – 275 gr. Skiptið deiginu í u.þ.b. 20 jafnstóra bita. Gerið „bolta“ úr hverjum bita og keflið svo út í hringlaga form, ca. 16 cm í þvermál. Stingið hvern hring með gaffli (passið að stinga alveg í gegnum deigið, ekki bara yfirborðið) og leggið svo á bökunarpappír á bökunarplötu. Látið hefa sig í nokkrar mínútur.
Bakið í miðjum ofni í 3 – 5 mínútur (eða þar til gullinbrúnt).