Ég þjófstartaði jólabakstrinum daginn með þessum amerísku smákökum sem kallast Snickerdoodles (sem ég myndi segja að væri nánast óþýðanlegt á íslensku 🙂 ) Þetta eru reyndar held ég engar sérstakar jólasmákökur í Ameríku (eða það held ég a.m.k. ekki) þannig ég hljóp eflaust ekkert svo illilega á mig.
Annars voru þetta næstum einu smákökurnar sem ég bakaði fyrir jólin 2011, en þá var dóttir okkar nýfædd. Það þurfti nú næstum ekki meira, þetta eru einhverjar bestu smákökur sem ég hef smakkað (skrítið, 3 kg af kanil í uppskriftinni, eða því sem næst… )
Snickerdoodles (Kanilsmákökur).
225 gr smjör
270 gr sykur
1 egg
1 tsk vanilludropar
290 gr hveiti
2 tsk lyftiduft
2,5 tsk kanill
½ tsk salt
Kanilsykur (til að rúlla kökunum upp úr).
50 gr sykur
1 tsk kanill
Aðferð
Hitið ofninn í 190 gr.
Blandið saman sykri og kanil í litla skál til að rúlla kökunum upp úr og setjið til hliðar.
Hrærið saman smjör og sykur þar til létt og ljóst. Bætið egginu og vanilludropunum út í . Skafið niður hliðarnar eftir þörfum. Setjið til hliðar.
Blandið saman hveiti, lyftidufti, kanil og salti í annarri skál. Setjið þessi þurrefni út í smjör og sykurhræruna í 3 skömmtum. Athugið að deigið á að vera fremur þykkt.
Takið 1,5 – 2 msk af deigi í einu og rúllið í kúlu. Rúllið svo hverri kúlu upp úr kanilsykri. Raðið á bökunarpappír á ofnskúffu og bakið í 11 – 12 mínútur.