Ég elska allar tegundir af „mylsnu-bökum“ og þegar ég rakst á þetta hindberjapæj í fyrsta Hembakat-blaðinu sem ég keypti þá var nokkuð ljóst að ég yrði að prófa. Ég væri líka að ljúga ef ég segði að marsípanið í bökuskelinni hefði ekki talað sérstaklega mikið til mín þegar ég las uppskriftina. Og til að vera alveg hreinskilin þá held ég að þetta sé ein besta mylsnubaka sem ég hef á ævinni smakkað. Sjúklega gott, svo ekki sé meira sagt!
Ef ykkur finnst svona ávaxtabökur góðar og marsípan gott þá bara verð ég að mæla með að þið prófið. Hindber í bakkelsi minna mig að mörgu leyti á rabbabara, þau verða svo skemmtilega súr sem passar einstaklega við sætar bökur. Mér finnst þessi baka allavega algert match made in heaven. Alger Stínubaka og varð instant klassíker á þessu heimili. Svo toppar herlegheitin að það tekur fáránlega stuttan tíma að henda henni inn í ofn 🙂
Hindberjabaka með marsípani og ferskjum
Bökuskel
3 dl hveiti
1 dl sykur
2 msk vanillusykur
100 gr smjör
200 gr marsípan (eða möndlumassi ef þið finnið svoleiðis)
Fylling
3 ferskjur (eða epli, virkar alveg líka)
250 gr hindber, frosin (má nota fersk)
Aðferð
Ofninn stilltur á 175 gr.
Öll hráefnin sem eiga að fara í bökuskelina sett í matvinnsluvél. Smjörið og marsípanið er skorið í bita. Allt hakkað í fínkorna massa.
3/4 af bökuskelinni sett í smurt bökuform (u.þ.b. 26 cm í þvermál) og þjappað vel niður í formið og upp með hliðunum.
Ferkjurnar eru afhýddar og skornar í sneiðar og lagðar yfir deigið. Hindberjunum stráð yfir ferskjurnar. Restinni af bökuskelinni stráð yfir hindberin.
Bakað í miðjum ofni í ca. 30 mínútur.
Borið fram með ís eða rjóma.
Bakaði þessa en notaði frystan rabarbara og epli og bar fram heita með ís og hún fékk mikið lof nema hjá 15 ára unglingi sem vildi ekki rababaran, ætla að baka hana aftur og nota þá hindber og ferskjur , en þær fást bara svo sjaldan ferskar hér..
Ég er að hugsa um að prófa hana á þinn máta, þ.e. með rabbabara og eplum þegar við fáum smá uppskeru í sumar, mér finnst það hljóma rosalega vel 😀