Kökur

Súkkulaðikaka með kókos og lime

 

Ég var víst búin að lofa að baka ekki bara upp úr eintómum kanil fram að jólum. Um helgina stóð ég við það loforð! Lára vinkona mín bauð mér í kaffi þegar ég var heima á Íslandi fyrir stuttu og bauð mér upp á æðislega góða lime-súkkulaðiköku. Þegar ég var að skoða nýjasta hefti Hembakat (hefti 6/12) þar sem aðalþemað er súkkulaði rakst ég á þessa ótrúlega girnilegu kókos- og limesúkkulaðiköku sem bókstaflega kallaði á mig eftir að ég hafði smakkað kökuna hjá Láru 🙂

Súkkulaðikaka með kókos og lime.

Kaka
150 gr smjör
100 gr suðusúkkulaði (eða jafnvel dekkra ef vill)
3 egg
2 dl sykur
3 dl hveiti
2 dl kókos
1 tsk lyftiduft
Rifinn börkur af einum lime ávexti.

Glassúr
2 dl flórsykur
2 tsk limesafi
rifinn börkur af einum lime ávexti

Til skrauts
2 msk kókos

Hitið ofninn í 175 c.

Bræðið smjörið og súkkulaðið saman í potti yfir lágum hita.

Þeytið saman egg og sykur þar til ljóst og létt.

Blandið vel saman hveiti, kókos og lyftidufti.

Blandið hveitiblöndunni saman við eggjablönduna með sleikju eða sleif (varlega, þannig að það fari ekki allt loft úr eggjablöndunni). Blandið að lokum súkkulaðiblöndunni og lime saman við eggja- og hveitiblönduna (aftur, varlega og með sleikju eða sleif).

Smyrjið brauðform og stráið kókos yfir. Setjið deigið í formið og bakið í ca. 40 mínútur eða þar til prjónn kemur hreinn upp sé honum stungið í mitt formið. (Ég þarf eins og vanalega alltaf að baka lengur en gefið er upp, í þetta skipti í 60 mínútur!).  Látið kökuna kólna.

Hrærið saman hráefnunum í glassúrinn. Dreifið yfir kökuna og stráið svo smá kókos yfir.

Njótið 🙂

Myndi ég baka þetta aftur?: Já. Okkur fannst öllum kakan mjög góð, sérstaklega þó mér og Binna (eiginmanninum). Hann er ekki mjög hrifin af miklu kremi á kökum og þessi létti og örlítið súri glassúr fannst honum alveg meiriháttar góður.

5 athugasemdir á “Súkkulaðikaka með kókos og lime

  1. Vá hvað þetta er girnileg kaka, var farin að slefa svo ég fékk mér að borða! Verð að prófa að baka þessa.

    1. Þú hefur þá meiri sjálfstjórn en ég, ég hefði sennilega bakað hana, borðað og svo mögulega íhugað að fá mér eitthvað að borða 😉

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s