Eldri stelpan mín er með mjólkuróþol og því hef ég þurft að aðlaga súkkulaðikökuuppskriftina sem ég fékk frá mömmu með því að skipta út kúamjólk fyrir hrísmjólk. Persónulega finnst mér hrísmjólk betri en sojamjólk en það var ekki val um margt annað á Ísandi fyrir 5 árum síðan. Í dag er aftur á móti hægt að kaupa til dæmis möndlumjólk og haframjólk og því alveg eins hægt að notast við þær eins og hrísmjólk eða sojamjólk. Í smjörkreminu er lítið mál að skipta út smjörinu fyrir smjörlíki, við komumst reyndar að því að það er mjög lítið af laktósa í smjöri og hef ég því notað smjör frekar en smjörlíki í seinni tíð.
Súkkulaðikaka
Hráefni:
2 bollar hveiti
1,5 tsk lyftiduft
0.5 tsk matarsódi
1 tsk salt
1.5 bolli sykur
200 gr smjörlíki (ég nota smjör)
1 bolli mjólk (ég nota hrísmjólk)
2 stór egg
Kakó eða matarlit (gulur, rauður, grænn eða blár) eftir því hvert tilefnið er 🙂
Aðferð:
Kveikt á ofninum 175°c.
Öllum efnum nema eggjum blandað saman í skál og hrært með hrærivél í 2 mín eða þar til allt er vel blandað saman. Eggin látin útí og hrært áfram í ca 2 mín. Sett í 2 lausbotna form og bakað í um það bil 35 min.
Ég persónulega á ekki 2 mót sem eru jafn stór, mamma segist baka helminginn af deiginu og þegar fyrri botninn er tilbúinn þá notar hún sama form aftur og bakar hinn helminginn. Þetta er full mikið vesen finnst mér og ég hef því bara sett þetta í eitt mót og ef ég vil fá tvo botna þá sker ég kökuna í tvennt með kökusneiðaranum mínum. Ef þessi leið er farin þá vill kakan stundum verða pínu brunnin ofan á og ekki alveg tilbúin innaní. Því set ég álpappír yfir kökuna þegar hún er búin að lyfta sér og lítur út fyrir að vera tilbúin utaná en er enþá blaut innaní. Einnig tekur þessi leið aðeins lengri tíma en ég hef aldrei tekið tímann, geri það kannski við tækifæri og set hingað inn.
Smjörkrem
Alltaf þegar ég geri þessa köku gúggla ég smjörkrem og nota þá uppskrift sem heillar mig það skiptið. Ég man aldrei eftir að skrifa niður uppskriftina ef ég var að fíla kremið.
Ég hef gert þessa köku ótal sinnum. Ég hef einnig sett hana í muffinsform og skreytt með smjörkremi. Snákar, eldfjall og risaeðlur hafa orðið til í mínum eldhúsum sem og regnbogakökur.









9 athugasemdir á “Afmæliskaka”