Þessar smákökur eiga samkvæmt uppskriftinni að vera mun dekkri en þær urðu hjá mér. Sennilega er ástæðan sú að ég fann ekki melassa og notaði þ.a.l. dökkt sýróp. Varð frekar pirruð fyrir vikið en Binna og strákunum fannst þær svo frábærlega góðar að ég gat ekki annað en deilt þeim með ykkur 🙂
Engifersmákökur
Gerir u.þ.b. 24 stórar kökur.
5,25 dl hveiti
2 tsk engifer
1 tsk matarsódi
¾ tsk kanill
½ tsk negull
¼ tsk salt
170 gr smjör
2,5 dl sykur
1 egg
1 tsk vatn
65 ml melassar eða dökkt sýróp
2 tsk hvítur sykur (til að rúlla upp úr)
Ofninn stilltur á 175°c. Blandið saman hveiti, engifer, matarsóda, kanil, negul og salti. Setjið til hliðar.
Í annarri skál þeytið saman smjöri og sykri þar til létt og ljós. Bætið við egginu og hrærið vel og bætið svo við vatninu og sýrópinu og þeytið vel. Blandið þurrefnunum saman við. Rúllið deiginu upp í litlar kúlur og rúllið upp úr sykri ef vill. Setjið á ofnskúffu, ekki of þétt saman.
Bakið í 8 – 10 mínútur.