Ok, þessar smákökur voru svo asnalega góðar að ég á eiginlega ekki til orð til að lýsa því. Þær eru eiginlega meira eins og sælgæti heldur en smákökur. Ég hafði engar brjálaðar væntingar sjálf en við vorum með gesti þegar ég bakaði þær og ég hef aldrei séð smákökur hverfa jafn hratt ofan í fólk. Þær eru eins og litlir brownie-bitar með mjúkri karamellu í miðjunni – þetta var FÁRANLEGA gott! Ef ykkur vantar eitthvað að baka núna – þá eru þessar smákökur málið!
Dumlekökur
120 gr smjör, við stofuhita
1 dl púðursykur
2 dl sykur
2 egg
5 dl hveiti
1,5 dl kakó
1 tsk matarsódi
1 tsk salt
2 tsk vanillusykur
Ca. 30 dumlekaramellur
Stillið ofninn á 200 c.m
Hrærið saman sykrinum og smjörinu. Bætið eggjunum út í, einu í einu og hrærið vel.
Í annarri skál, hrærið saman hveiti, kakói, matarsóda, vanillusykri og salti. Bætið út í sykur- og eggjablönduna og hrærið vel saman.
Takið utan af karamellunum, setjið sykur í skál og setjið bökunarpappír á ofnplötu.
Búið til kúlur úr deiginu, u.þ.b. 30, ekki mjög litlar. Takið hverja kúlu, fletjið út og setjið eina karamellu í miðjuna og rúllið svo í kúlu aftur. Rúllið kúlunni upp úr sykri. Setjið á bökunarplötu en passið upp á að hafa ágætt bil á milli þeirra því að þær fletjast út. Bakið í 5 – 7 mínútur og njótið meðan þær eru enn volgar. Nammi namm 🙂