Það er svo einfalt að gera þetta piparmyntusúkkulaði að það er varla hægt að tala um uppskrift. Svo er þetta líka ljómandi gott og jólalegt konfekt.
Piparmyntusúkkulaði
170 gr suðusúkkulaði
340 gr hvítt súkkulaði
1/2 tsk piparmyntudropar
3 piparmyntu jólastafir
Leggið bökunarpappír á fat eða ofnskúffu.
Bræðið 170 gr af hvítu súkkulaði. Þið getið annaðhvort brætt það í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði. Ef þið veljið örbylgjuofninn þá þurfið þið að muna að hafa súkkulaðið bara inni í smástund (15 sek) í einu og hrærið vel í súkkulaðinu á milli.
Þegar súkkulaðið er alveg bráðnað er 1/4 tsk af piparmyntudropum hrært saman við. Smyrjið súkkulaðinu á bökunarpappírinn eins þunnt eða þykkt og þið viljið. Ég miðaði við að hafa það ca 20 cm á lengd. Kælið súkkulaðið og látið það harðna alveg.
Bræðið suðusúkkulaðið og blandið 1/4 tsk af piparmyntudropum hrært saman við. Smyrjið súkkulaðinu ofan á hvíta súkkulaðið. Kælið súkkulaðið aftur.
Bræðið afganginn af hvíta súkkulaðinu og smyrjið ofaná súkkulaðið. Í þessu lagi eru ekki piparmyntudropar. Brjótið jólastafina og dreifið þeim yfir súkkulaðið. Kælið aftur þar til að súkkulaðið er alveg harnað. Skerið í bita og geymið í kæli eða frysti.