Ég gerði litla uppskrift af þessum kökum sem ég las einhversstaðar að séu vinsælar í Danmörku. Okkur fannst þær mjög góðar og þær geta varla klikkað ef fólki finnst marsípan og smjördeig gott 🙂
Napóleónshattar
Hráefni
150 gr smjör
4 – 4,5 dl hveiti
1 dl sykur
1 eggjarauða (ATH: ég þurfti tvær til að ná deiginu góðu)
250 gr marsípan (má blanda með grænum matarlit ef fólk vill)
Flórsykur eða súkkulaði (nema hvort tveggja sé) til skreytingar.
Aðferð
Smjör, hveiti, sykur og eggjarauðan unnin saman hratt(t.d. í matvinnsluvél) í deig. (Ég á ekki matvinnsluvél og reyndi að mylja hveitið, sykurinn og smjörið í höndunum og svo hnoða saman við eggið. Það gekk illa þannig að ég henti þessu á endanum í hrærivélina og ég get ekki séð að deigið hafi orðið verra fyrir vikið.) Deigið kælt í ískáp í smástund.
Búnar til ca. 50 kúlur úr marsípaninu.
Deigið flatt út (í nokkrum umgöngum) á örlítið hveitistráðu borði og skornar út hringlóttar kökur, ca. 6 cm í þvermál.
Ein marsípankúla lögð í miðjuna á hverri köku og deigið klemmt saman frá þremur hliðum í kringum fyllinguna (sjá mynd til skýringar). Passað að þrýsta endunum vel saman svo að hliðarnar losni ekki frá fyllingunni við baksturinn.
Kökurnar eru bakað í miðjum ofni í ca. 10 mínútur við 175 gr. hita.
Skreytt með flórsykri eða súkkulaði