Muffins

Eplabrauð með karamellu



Muffinsið á myndinni átti alls ekkert að vera muffins heldur brauð – svona í stíl við bananabrauð. Þegar ég var búin að hræra í deigið og hella því í brauðformið áttaði ég mig hins vegar á því að brauðformið í uppskriftinni var talsvert minna en það sem ég átti og  því ekki til nóg af deigi. Það gerði svosem ekkert til – flestar svona „kökubrauðs“-uppskriftir eru alveg jafn góðar sem muffins 🙂

Ég ætlaði heldur upphaflega ekki að setja mylsnu ofan á brauðið en ég var að fá gest með mjólkuróþol og af því að hún mátti ekki fá karamellunna fannst mér ég þurfa að reyna fiffa aðeins hennar hluta af muffinsunum. Þegar ég var svo búin að búa til mylsnuna fannst mér upplagt að setja hana bara ofan á alla uppskriftina og karamelluna líka – bara bæði betra 😛

Ég er nú held ég búin að koma því á framfæri áður að mér finnst muffins rosalega góð og þessi sviku ekki, fara frekar ofarlega á listann hjá mér yfir góð muffins. Kannski svolítið lík piparkökumöffinsunum út af negulnum en það er svosem ekkert verra 🙂


Eplabrauð með karamellu

Hráefni
3 bollar hveiti
2 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
2 tsk kanill
1 tsk negull
170 gr smjör, mjúkt
1/2 bolli púðursykur
1/2 bolli sykur
3 egg
3 miðlungsstórð epli, rifin eða í bitum.
4 msk karamellusósa (heimagerð eða keypt – og ég myndi nú splæsa aðeins meira í þetta en það er auðvitað bara ég!)
Valhnetur, ef vill.

Mylsna:
1,5 tsk kanill
6 tsk hveiti
6 tsk púðursykur
6 tsk kalt smjör

Aðferð

Ef verið er að gera muffins hitið ofninn í 190 gr.

Ef verið er að gera brauð hitið ofninn í 175 gr.
Blandið saman hveiti, salti, matarsóda, kanil og negul í skál og setjið til hliðar.

Þeytið saman smjör og sykur þar til ljóst og létt. Bætið eggjunum út í, einu í einu, og hrærið vel. Skafið hliðarnar á skálinni með sleikju.

Bætið einum þriðja af hveitiblöndunni við og hrærið þar til blandað saman. Blandið helmingnum af eplunum saman við og hrærið þar til blandað. Bætið við öðrum þriðjungi hveitiblöndunnar og hrærið þar til vel blandað. Hrærið hinum helmingnum af eplunum saman við og að lokum síðasta hveitiskammtinum. ATH: ég blandaði hveitinu og eplunum saman við með sleif. Eins og gengur með muffinsdeig þá er mikilvægt að hræra það ekki of mikið, minna er meira í þessu samhengi!

Mylsnan er búin til með því að blanda þurrefnunum saman og mylja svo smjörið saman við.
Muffins: setjið 1,5 msk af deigi í hvert form, setjið ca. tsk af karamellu ofan á deigið. Setjið aðra 1,5 msk af deigi ofan  á. Mylsnu dreift yfir ef vill. Bakið í 15 – 18 mínútur eða þar til þau eru orðingullinbrún. Smá karamellusósa sett ofan á og hnetur ef vill.

Brauð: hellið helmingnum af deiginu í brauðform. Setjið 2 – 3 tsk af karamellusósu yfir deigið og setjið svo restina af deiginu yfir. Mylsnu dreift yfir ef vill. Bakið í 50 – 60 mínútur (gott að snúa forminu þegar helmingurinn af baksturstímanum er liðinn). Brauðið er tilbúið þegar prjónn kemur hreinn úr deiginu. Leyfið brauðinu að kólna aðeins, setjið svolítið af karamellusósu yfir og setjið hakkaðar hnetur yfir.

Myndi ég baka þetta aftur? Já, ég myndi svo sannarlega gera það. Svona ef ég prófaði ekki nýja muffinsuppskrift nánast í hvert einasta skipti sem ég baka 🙂 Ég held reyndar að ég verði að gera þessa uppskrift aftur og gera þá alvöru brauð úr henni, það fór örlítið í taugarnar á mér að þurfa að breyta yfir í möffins 😉

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s