Oft þegar ég sé uppskriftir á Facebook fyllist ég eldmóði og langar til að baka það sem ég sé að aðrir eru að baka. Og þessa uppskrift að hafrakökum fékk ég einmitt í gegnum FB. Ég er búin að breyta henni töluvert – skipta út hráefnum og setja önnur í staðinn sem og auka magn kanils um 400 %.
Hafrakökur
2 egg
½ bolli púðursykur
3 msk síróp
1 bolli olía
Vanilludropar
1½ bollar hveiti
½ tsk salt
2 tsk kanill
½ tsk matarsódi
3 bollar haframjöl
½ bolli dökkt súkkulaði saxað (það eru ¾ af svona þunnri súkkulaðiplötu)
½ bolli rúsínur
½ bolli fræ (mér finnst gott að nota sólblóma og graskersfræ)
½ bolli kókósmjöl
Kveikja á ofninum og stilla á 200°c
Egg, púðursykur, sýróp, olía og vanilludropar hrært vel saman með aðstoð eldhúshjálparinnar. Hveiti, salti, kanil og matarsóda bætt útí hræruna. Þegar búið er að hræra alla kekkina úr er haframjölinu, súkkulaði, rúsínum, fræjunum og kókosmjölinu hrært saman við.
Meðal stórar kúlur hnoðar úr deiginu, settar á bökunarpappír og þrýst á kúlurnar. Það er misjafnt hvað ég fæ margar kökur úr einni uppskríft þar sem kúlurnar eru misstórar hjá mér.
Kökurnar eru bakaðar 8-10 mín eða þar til þær eru gylltar að utan en mjúkar innaní.