Hakkréttir

Tacobaka

Leitin að fjölbreytileikanum í hversdagsmatnum heldur áfram! Fyrirbæri sem kallast „tacobaka“ virðist vera mjög vinsælt í Svíþjóð. Ég sé reyndar ekki alveg hvað er svona taco-legt við bökuna, fyrir utan tacokryddið sem maður setur út á hakkið en sama er. Ég ákvað að prófa þennan rétt sem ég hef oft séð uppskriftir að hér úti og fann uppskrift á uppskriftavef Arla.

Uppskriftin var einföld og fljótleg (kannski fyrir utan forvinnuna með bökuskelina, en hana mætti líka kaupa) og rétturinn var mjög góður. Í uppskriftinni er notast við bæði venjulegan, hreinan sýrðan rjóma og bragðbættan sýrðan rjóma sem ekki fæst á Íslandi. Mér dettur í hug að það mætti nota bara tex-mex smurost í staðinn eða blanda saman sýrðum rjóma og tacosósu (miðlungssterkri t.d.) til að fá út svipað bragð og það sem er notað.

Rétturinn var ansi sterkur, við slepptum samt sem áður chilli-piparnum á helminginn en bragðbætti sýrði rjóminn reif aðeins í þannig að næst myndi ég hafa minn af honum og meira af hreina rjómanum (svona fyrir blessuð börnin 😉 😉

Tacobaka

Bökuskel
150 gr smjör
3 dl hveiti
1 tsk paprikuduft
2 msk vatn

Fylling
500 gr nautahakk
1 msk smjör
1 poki tacokrydd
1 dl vatn
2 dl sýrður rjómi með papriku og chilli
2 dl sýrður rjómi
250 gr kirsuberjatómatar
1 grænn chillipipar, þunnt sneiddur.
150 gr rifinn ostur
1 tsk paprikuduft

Smjör, hveiti og paprikuduft mulið vel saman, annað hvort í höndunum eða í matvinnsluvél. Vatni bætt í og unnið hratt saman þannig að þetta verði að deigi. Deiginu þrýst út í pæ-form eða eldfast mót. Gerið göt í deigið með gaffli á nokkrum stöðum og setjið svo formið í kæli í ca. 30 mínútur. Forbakið pæj-deigið í 225 c heitum ofni í ca. 12 mínútur.

Steikið hakkið á pönnu í smjöri. Bætið tacokryddinu út í ásamt vatni og látið malla í 5 mínútur. Blandið sýrða rjómanum öllum saman í skál. Skerið tómatana í tvennt. Setjið hakkið í pæ-formið, setjið sýrða rjómann yfir hakkið. Setjið tómatana ofan á sýrða rjómann ásamt  græna chilli-inu, stráið osti yfir og setjið að lokum paprikuduft yfir.

Bakað í ca. 25 mín, þar til osturinn er orðinn gullinbrúnn.

Borið fram með góðu salati, sýrðum rjóma og taco-flögum.

Myndi ég elda þetta aftur?: Já, hiklaust. Þetta var æðislega gott og skemmtileg nýbreitni í hakkréttina á heimilinu sem geta orðið ansi leiðigjarnir 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s