Þar sem Stína er búin að koma með 2 færslur fannst mér vera komin töluverð pressa á mig 😉
Ég heima með veikt barn og varð því að skoða vel hvað var til og úr varð að gera gulrótarköku. Ég átti til nóg af gulrótum og svo egg sem voru að fara falla á tíma þannig að þetta var tilvalið.
Ég á mér ekki neina uppáhalds uppskrift og ég googla venjulega bara þegar löngunin kemur yfir mig. Í þetta skiptið rakst ég á uppskrift sem er á joyofbaking.com. Í henni eru hnetur en ég átti þær ekki til þannig að þeim var sleppt – hef þær örugglega með næst.
Gulrótarkaka
1 bolli hakkaðar valhnetur eða pekanhnetur ( ég átti þær ekki til og voru þær því ekki með)
2.5 bollar fínt rifnar gulrætur
2 bollar hveiti
1 tsk matasódi
1.5 tsk lyftiduft
0.5 tsk salt
1.5 tsk kanil (ég nota alltaf rúmlega af kanil )
4 stór egg (ég notaði 5 lítli)
1.5 bolli sykur
1 bolli olía ( ég áttil bara smjör og notaði því rúmlega bolla af smjöri)
2 tsk vanilludropar
Ofninn er hitaður í 180 °c og formin smurð með olíu eða smjöri.
Byrjað er á því að hræra sama hveiti, matasóda, salt, lyftiduft og kanil og það sett til hliðar. Eggin eru þeytt og þegar þau eru „flöffí“ er sykrinum bætt smám saman við. Olíunni er hellt út í hægt á meða eggin eru þeytt. Hveitiblöndunni er bætt við og hrært varlega. Þegar deigið er kekkjalaust er vanilludropum bætt við og þar á eftir gulrótum og hnetum hrært mjög varlega saman við. Deginu hellt í formin og sett í ofnin.
Krem
227 gr Rjómaostur
57 gr smjör við stofuhita
2 bollar flórsykur
1 tsk vanilludropar
1 tsk rifinn sítrónubörkur
Rjómaostur og smjör þeytt sama þangað til blandan er kekkjalaus. Flórsykri er bætt við smám saman og þegar kremið er tilbúið er vanilludropum og sítrónuberki bætt við.
Mikilvægt er að bíða þangað til kakan er orðin köld áður en kremið er sett á hana. Ég á oft mjög erfitt með að bíða 🙂 Mig minnir endilega að þegar ég hef verið að gera gulrótarkökur þá hafi ekki verið svona maus með að þeyta eggin og sykurinn. Kakan var óneitanlega léttari í sér sem var alveg ágætt en ég er ekki viss um að ég nenni að þeyta eggin næst. Kakan var mjög góð og er því til stuðnings hálf kakan búin, NB ég er ein heima með veikt barn sem hefur ekki mikla matarlyst.