Já já, ég sagðist víst vera búin að baka fyrir jólin en svo kom í ljós að ég var ekkert búin að baka fyrir aumingja eiginmanninn og ég varð auðvitað að kippa því í liðinn. Hann er frekar fyrirhafnalítill þessi elska og langaði mest í súkkulaðibitakökur. Það hafa örugglega milljón manns gert þetta á undan mér (án þess að ég hafi neina hugmynd um það) en ég ákvað að búa til mikið af deigi og setja salthnetur í helminginn og rolo í hluta af restinni (og svo gerði ég nokkrar risastórar oreo-kökur líka). Eiginmaðurinn á enn eftir að dæma um hvernig salthnetukökurnar hafa tekist til en rolo-kökurnar eru að slá í gegn hjá sjálfri mér. Namm!
Ég notaði sama deig og ég notaði í oreo kökurnar, kældi það í smástund áður en ég bakaði úr því eins og síðast og það er kannski það sem gerir það að verkum að það heldur vel lögun sinni og verður mjúkt og „krispí“ á sama tíma.
Súkkulaðibitakökur með rolo-molum
Hráefni
225 gr mjúkt smjör
3/4 bolli púðursykur
1 bolli sykur
3 egg (eða 2 stór)
1 tsk vanilludropar
3,5 bollar hveiti
1 tsk flögusalt (t.d. maldon)
1 tsk matarsódi
100 gr súkkulaði í bitum
2 pakkar rolo-molar (held það séu kannski 12 í hverjum)
Hitið ofninn í 175 gr. c.
Þeytið saman smjör og sykur þar til létt og ljóst, annað hvort í hrærivél eða með handþeytara. Bætið við eggjum, einu í einu, og skafið hliðarnar á skálinni á milli. Bætið vanilludropum út í.
Hrærið vel saman hveiti, salt og matarsóda. Blandið hveitiblöndunni saman við eggja/sykurblönduna ásamt súkkulaðibitunum og hrærið. Á þessum tímapunkti kældi ég deigið í ca. klst.
Takið smá deig og fletjið út, setjið einn rolo-mola á það og setjið deigið utan um molann og mótið kúlu. Setjið á plötu og bakið þangað til kakan er aðeins farin að brúnast.
Súkkulaðibitakökur með salthnetum
Hráefni
225 gr mjúkt smjör
3/4 bolli púðursykur
1 bolli sykur
3 egg (eða 2 stór)
1 tsk vanilludropar
3,5 bollar hveiti
1 tsk flögusalt (t.d. maldon)
1 tsk matarsódi
100 gr súkkulaði í bitum
3/4 bolli salthnetur, saxaðar gróft.
Hitið ofninn í 175 gr. c.
Þeytið saman smjör og sykur þar til létt og ljóst, annað hvort í hrærivél eða með handþeytara. Bætið við eggjum, einu í einu, og skafið hliðarnar á skálinni á milli. Bætið vanilludropum út í.
Hrærið vel saman hveiti, salt og matarsóda. Blandið hveitiblöndunni saman við eggja/sykurblönduna ásamt súkkulaðibitunum og hrærið. Bætið salthnetunum út í og blandið saman. Á þessum tímapunkti kældi ég deigið í ca. klst.
Mótað í litlar kúlur og bakað í ca. 12 mínútur.
