Þegar mig langar í eitthvað fljótlegt og gott finnst mér oft tilvalið að skella í muffins. Það tekur bara nokkrar mínútur og er einfaldara en nánast allur annar bakstur. Ég nota sjaldnast sömu uppskriftina tvisvar, gúggla bara eitthvað og finn uppskrift sem hentar þeim hráefnum sem ég á til þá stundina.
Við fórum í bústað um helgina með vinum okkar og eins og oft vill verða þá tókum við *hóst* hraustlega til matar okkar. Ég ákvað því að það væri tilvalið að baka einhverjar ægilega hollar muffins í dag, halda sykri í lágmarki o.s.frv. Ég hef oft gert það áður með góðum árangri. Gúgglaði helling og fann uppskrift sem mér leist vel á en gat ekki látið það vera að breyta og „bæta“.
Og hvernig var árangurinn af þessari tilraunastarfsemi? Ég var varla búin að setja möffinsformin inn í ofn þegar ég áttaði mig á því að sennilega hefði ég sett of lítið af vökva. Í upphaflegu upskriftinni vor 5 dl af heilhveiti en ég setti 3 dl af höfrum í staðin. Ég hefði betur minnkað magnið af höfrum hressilega. Ég horfði allavega á muffinsin mín lyfta sér lítið sem ekkert í ofninum.
Þegar ég svo tók þau út og smakkaði þá voru þau samt blaut (og næstum slepjuleg)! Ástæðan er sennilega í aðra röndina haframjölið en einnig er fáránlega mikið magn af gulrótum í upphaflegu uppskriftinni (ég minnkaði það m.a.s.). Aftur á móti eru þau bragðgóð og öllum börnunum mínum þótti þau mjög góð. Ég fékk mér aftur á móti bara eitt og lét það duga. Sem er sennilega ágætt eftir afköst helgarinnar…
Tek fram að uppskriftin sem hér fylgir á eftir er sú sem ég bakaði. Ég myndi alveg mögulega reyna að laga þessa til, setja bara 1 dl af höfrum á móti 4 af heilhveiti, minnka magn gulróta um heilan bolla og kannski setja smá slettu af ab mjólk útí. Neyðist mögulega til að prófa það, það fer sjúklega í taugarnar á mér að tilraunin hafi ekki heppnast.
Möffins með gulrótum og kókos (og 2 litlum eplum)
2 dl heilhveiti
3 dl hafrar
2,5 tsk lyftiduft
2 tsk kanill
1/2 tsk múskat
1/2 tsk negull
1/2 tsk salt
2 bollar rifnar gulrætar
2 lítil rifin epli
1/2 bolli kókos
1/2 bolli sykur
2 egg
1/2 bolli eplamauk
2 tsk vanilluduft.
Ofninn hitaður í 175 gr.
Öllum þurrefnum blandað saman. Í annarri skál er gulrót, eplum, eggjum og eplamauki blandað saman. Þurrefnunum er svo blandað í hin blautu og reynt að hrærar eins lítið og hægt er.
Deiginu er hellt í möffinsform (annað hvort bréf eða álform) og bakað í ca. 30 mínútur.
Uppfært: Heimilisfaðirinn kom heim og lýsti því yfir að þessu möffins væru „æðislega góð“ og fékk sér þrjú. Það er því ljóst að heimilisfólkinu ber ekki saman um gæði baksturins…