Þeir sem þekkja mig vita að mér finnst fátt betra en bakkelsi með kanil (og helst miklu af honum!). Ég rakst á blað út í búð í vor hér í Svíþjóð sem kallast „Hembakat“ sem var bókstaflega útroðið af girnilegum uppskriftum og ég ákvað að prófa að baka kanillengju upp úr blaðinu. Lengjan var æðislega góð og ekki verra að hún lítur út fyrir að vera æðislega flókinn bakstur en tók raunverulega enga stund að gera 😉 (er það ekki annars alveg ægilegur bónus þegar maður er að fara bera eitthvað fram fyrir gesti?) Þ.e. fyrir utan tímann sem fer í hefingu. Ég hef svo fyrir reglu að hnoða helst allt sem þarf að hnoða í kitchenaidinni minni 🙂
Kanillengja
50 gr ferskt ger (einn pakki þurrger)
150 gr smjör
6 dl mjólk
Salt á hnífsoddi
1 dl sykur
1 tsk kardimomma
15 – 16 dl hveiti
Fylling
75 gr smjör
1 dl sykur
2 msk vanillusykur
2 msk kanil
Aðferð
1. Gerið mulið ofan í skál. Smjörið brætt og mjólkinni hellt í og vökvinn hitaður þar til hann er volgur og svo hellt yfir gerið og hrært í þar til það hefur leysts upp.
2. Salti, sykri, kardimommu og hveiti bætt út í smátt og smátt. Unnið saman í deig og látið hefast undir viskastykki í 45 mínútur.
3. Fyllingin hrærð saman: smjörið mýkt upp að stofuhita (t.d. í örbylgju) þannig að það verði mjúkt en ekki að vökva. Sykri, vanillusykri og kanil bætt út í og hrært í.
4. Þegar deigið hefur hefað sig er það hnoðað í nokkrar mínútur og síðan skipt upp í 2 helminga. Hvor bitinn um sig er flattur út með kökukefli í aflangan bita (eins og pizzu á bökunarplötu). Fyllingin er sett í miðjuna á útflöttu deiginu.
5. Skerið rendur í deigið, skáhallt, sitt hvoru megin við fyllinguna með hníf og síðan er deigið fléttað saman með því að leggja flipana hvorn yfir annan.
6. Ofninn settur á 200 gr. og lengjurnar látnar hefa sig aftur í ca. 30 mínútur undir viskastykki. Flétturnar eru penslaða með eggi og perlusykri stráð yfir og svo bakaðar í neðri hluta ofnsins í 15 – 20 mínútur.
Hvað er þetta mikill sykur í fyllingunni? Það stendur bara 1 sykur.
Þetta á að vera 1 dl af sykri. Takk fyrir að benda okkur á þessa villu, ég er búin að laga þetta 🙂
Sæl hvað væri hægt að nota í stað perlusyskurs. Fæst hvergi hér hjá mér.
Ég er ekki viss um að þú þurfir endilega að setja eitthvað annað í staðinn fyrir perlusykurinn, hann er svoldið notaður sem skraut bara.