Aðventa · Jól

Piparkökubiscotti

Fyrir 2 árum síðan var ég matgæðingur vikunnar. Ég ákvað að vera með piparköku þema þar sem það var korter í jól og ég elska allt með piparkökubragði. Ég ákvað að finna eina nýja uppskrift til að setja með í blaðið og varð piparkökubiscotti fyrir valinu. Biscotti er stökkt möndlu-kex sem á uppruna sinn á Ítalíu. Nafnið bis-cotti þýðir að þetta kex er bakað tvisvar, bis (tví) cotti (bakað), þeim er oft dýft í drykk til að mýkja þær upp.

Það gleymdist alltaf að setja uppskriftina hingað á síðuna, núna bæti ég úr því og býð ykkur að prufa aðeins öðruvísi bakstur fyrir þessi jól 😉

Piparkökubiscotti

200 g smjör
2 dl hrásykur
1 dl sykur
4 egg
7 dl hveiti
4 tsk lyftiduft
1/2 tsk negull
2 tsk kanill
2 tsk engifer
1 tsk kardemommur
3 dl möndlur

Kveikið á ofninum á 200°c

Þeytið saman smjörinu og sykrinum (bæði hrásykrinum og venjulega sykrinum). Bætið eggjum við einu í einu og þeytið á milli. Skafið niður hliðarnar á skálinni af og til.

Hrærið hveiti, kryddum og möndlum saman við smjör hræruna. Degið á að vera svoldið klístrað.

Setjið degið á borð og hnoðið saman með smá hveiti. Deilið í 4 hluta og rúllið út lengjur sem eru jafn langar og ofnplatan.

Setjið tvær lengjur á bökunnarpappír og á ofnskúffu. Bakið í 20 min við 200°c. Þegar búið er að baka allar lengjurnar og láta þær kólna svolítið. Á meðan þær kólna er hitinn á ofninum lækkaður í 100°c. Skerið lengjurnar í þumlings breiðar sneiðar (eins og þið séuð að skera bauð í sneiðar). Raðið sneiðunum á ofnplötu þannig að skurðsárið snýr upp og bakið í 20 min í viðbót á 100°c eða þar til kökurnar eru þornaðar

Færðu inn athugasemd